134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:51]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sérstaka sýn varðandi skattlagningu fyrirtækja. Ég get alveg unnt honum þess að hafa aðra sýn en ég hef í þeim efnum. Ég er hins vegar algjörlega sannfærð um að íslenska ríkið og íslenska þjóðin hefur farið á mis við fjármuni frá stóriðjufyrirtækjunum í ljósi þeirra gríðarlegu ívilnana sem voru leiddar í lög þegar samningarnir við þau voru gerðir. Það er algjörlega deginum ljósara að íslenska þjóðin og íslenska ríkið átti að fá miklu meira af fjármunum í sinn hlut fyrir þá orku og aðstöðu sem þessi fyrirtæki fengu hjá okkur.

Hitt er svo annað mál, og auðvitað skylt, hvað það er sem við erum að selja þessum fyrirtækjum og hvort við verðleggjum það á þann hátt sem eðlilegt getur talist. Mín skoðun er sú að svo sé ekki. Mín skoðun er sú að við eigum að meta auðlindina ósnortna fyrst og reikna hana inn í dæmið. Við eigum að viðurkenna það að náttúra Íslands hefur verðgildi í sjálfu sér. Öðruvísi héti hún ekki auðlind.

Það leiðir af sjálfu sér að ef ekki verður til neinn „auður“ er lindin ekki auðlind. Við höfum verið að fórna auðlindinni okkar ósnortinni á altari stóriðjustefnunnar, erlendrar stóriðju sem hefur hirt arðinn af auðlindinni til sín. Og hver nýtur góðs af því? Fyrst og síðast fyrirtækin sjálf sem bólgna út og auka völd sín og umfang og stjórna kannski lögum og lofum orðið í heiminum af því að lönd og þjóðir hafa hleypt þeim í auðlindirnar sínar og ekki áttað sig á því að þau létu miklu meira en góðu hófi gegndi í hendurnar á þessum stórfyrirtækjum. Það er þetta sem ég hef gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir, þ.e. að hafa látið auðlindirnar verðlausar í hendurnar á þessum stórfyrirtækjum.