134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ætli það sé ekki í raun og veru íslenska þjóðin sem hefur með óhóflega háu raforkuverði goldið fyrir það sem stóriðjan hefði átt að greiða fyrir? Það mun hafa verið í tvígang á 8. áratugnum sem þurfti að hækka raforkuverð á allan almenning til að Landsvirkjun færi ekki á hausinn. Hv. þingmaður verður að átta sig á því að við erum að tala hér um talsvert langan tíma og það sem er í dag var ekki á þeim tíma sem stóriðja hér á Íslandi steig sín fyrstu skref.

Árið 1995 gaf íslenska ríkisstjórnin líka út risastóran bækling litprentaðan á glanspappír með forsíðu sem var til skammar, til háborinnar skammar, þar sem ríkisstjórnin lýsti því yfir í rauðu risaletri að á Íslandi væri að fá ódýrustu orku sem um gæti í veröldinni til stóriðjufyrirtækja. 1995 setti ríkisstjórnin Ísland á markað fyrir stóriðjufyrirtækin. Þessum stóriðjufyrirtækjum hefur frá 1995, og raunar auðvitað fyrr líka, staðið íslensk náttúra til boða fyrir 0 kr. Það er ósvinna. Það eru helgispjöll í hugum þeirra sem unna íslenskri náttúru og vita og átta sig á því að auður hennar margfaldast og eykst eftir því sem við getum gætt hennar lengur ósnortinnar.

Við vitum alveg hvernig peningaöflin haga sér. Við vitum alveg að peningaöflin ákváðu hér um daginn að þrefalda verðgildi alls íslenska raforkumarkaðarins vegna þess að það voru boðnir 7,6 milljarðar í hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja sem var samkvæmt bókun metinn um síðustu áramót á 2,4 milljarða. Er eðlilegt að fjármálaöflin geti spilað svona með eignirnar okkar? Mér finnst það ekki.