134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:35]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var nokkuð sérkennileg vandlætingarræða atarna. Það er rétt að það er borðleggjandi að friðlandið í Þjórsárverum verður stækkað. Það liggur fyrir vegna þess að það liggur fyrir í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar fyrir þetta kjörtímabil. Það er ein af ástæðunum fyrir því að Samfylkingin ákvað að axla þá ábyrgð að gerast aðili að ríkisstjórn til þess að ná árangri og áföngum í umhverfismálum, til þess að ná því að friðlýsa hér um alla framtíð mikilvægar gersemar í náttúru Íslands, til þess að stöðva þær miklu stóriðjuframkvæmdir sem hér hafa verið undanfarin ár og gera áætlun um það hvað við ætlum að vernda til langrar framtíðar, og klárlega þar Þjórsárverin. Það liggur fyrir í ræðum fulltrúa beggja stjórnarflokkanna við þessa umræðu að í Norðlingaölduveitu verður ekki ráðist meðan þessi ríkisstjórn situr, næstu fjögur árin.

Hér kemur þingmaðurinn upp og hefur uppi skammir og svívirðingar um það að hér haldi allt áfram eins og ekkert hafi í skorist og ríkisstjórnin ætli ekki að gera neitt. Ég verð bara að segja að ég átta mig ekkert á því með hvaða umræðu hv. þingmaður hefur verið að fylgjast, hvaða gögn hv. þingmaður hefur verið að lesa, vegna þess að ég veit ekki betur en að nú þegar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafi náðst verulegur árangur og að við séum sem betur fer að sjá verulega viðhorfsbreytingu sem m.a. kemur fram í því að bæði ég og félagi minn, hv. þm. Illugi Gunnarsson, lýsum því yfir hér við umræðuna að við teljum að tími ríkisábyrgða til virkjana fyrir stóriðju (Forseti hringir.) sé liðinn og við teljum að það geti verið að komið sé að endalokum stórra vatnsaflsvirkjana í landinu. Ef það eru ekki viðhorfsbreytingar á stjórnarháttum (Forseti hringir.) í landinu veit ég ekki hvað það er.