134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[19:16]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er málsvari umhverfisverndar í sínum flokki og það er vel. Hann er mikilvægur þar sem slíkur. Hins vegar get ég ekki tekið hans orð fyrir því að það sé búið að ákveða að hverfa frá Norðlingaölduveitu á þessu kjörtímabili meðan orð hæstv. forsætisráðherra glymja í eyrum mínum. Forsætisráðherra sagði: Ef það væri ætlun okkar að koma í veg fyrir Norðlingaölduveitu stæði það hér í þessu plaggi. Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra 24. maí. Ég get ekki að því gert þó að ég telji orð hans hafa örlítið meiri vigt en hins ágæta umhverfisverndarsinna, hv. þm. Illuga Gunnarssonar.

Ég er svo sammála hv. þingmanni í því að umræðan sé mjög mikilvæg. Það er mjög mikilvægt að við náum niðurstöðu um nýtingarhlutann annars vegar og verndarhlutann hins vegar. Það sem ég hef áhyggjur af er óðagotið sem orkufyrirtækin hafa sýnt frá fyrsta degi og sérstaklega eftir að markaðsvæðing raforkukerfisins okkar leit dagsins ljós. Má ég kannski rifja það upp hér hverjir stóðu í ístaðinu í þeirri umræðu? Það skiptir verulegu máli að orkufyrirtækin hafa komið öllum sínum áformum meira eða minna í skjól. Vinna auðlindanefndarinnar leiddi síðar í ljós svo óyggjandi var að orkufyrirtækin voru búin að koma öllum áformum sínum meira og minna í skjól. Þau geta reist hálft álver á Bakka, hálft álver í Helguvík, stækkað Straumsvík um helming eða meira, klárað að stækka Norðurál á Grundartanga og gott ef ekki gert lítið álver líka í Þorlákshöfn innan þeirra áforma sem þau eru komin með í höfn. Þau vaxa frekar en hitt með þeim leyfum sem gefin hafa verið út eftir að auðlindanefndin lauk störfum og þar nefni ég umdeilt rannsóknarleyfi í Gjástykki og líka rannsóknarleyfi (Forseti hringir.) í Krýsuvík sem var gefið út í upphafi síðasta vetrar.