134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:28]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Frítekjumörkin eru í dag 25 þús. kr. og síðan hverfa þau við 67 þús. kr., minnir mig, þannig að það er bara á því bili sem skerðingarnar eru mjög miklar í dag. Þær verða 24% þegar menn eru komnir í 70 þús. kr. Það sem menn eru að gera með þessari breytingartillögu sinni er að hækka þessi mörk upp í 80 þús. kr. þannig að þeir sem eru komnir upp í 80 þús. kr. horfa fram á mjög miklar skerðingar fyrir hvern þúsundkall sem þeir vinna sér inn til viðbótar.

Hvers vegna ekki að hvetja þá sem eru 67–69 ára? Ég nefndi það í ræðu minni að það er spurning hvað við getum farið langt niður án þess að bresti þjóðfélagsleg sátt um að fara í svona aðgerðir til að styðja og hvetja aldraða til að vinna fyrir þjóðfélagið sem er gott fyrir þá og þjóðfélagið og gefur ríkissjóði skatttekjur.