134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:57]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, minni hlutinn er sannarlega að leggja til að tillögur ríkisstjórnarinnar verði dregnar til baka. Það verði unnið að jöfnuði en ekki því að farið verði að skilgreina aldraða eftir því hvort þeir eru 67 ára eða 70 ára og eldri. Við ætlum ekki að fara að skipta öldruðum eftir aldri með sérstökum hætti. Við viljum vinna að jöfnuði og við viljum að allir fái það sama. Við gerum okkur líka grein fyrir því að það er ekki hægt að gera allt núna. Það er ekki inni í þessum tillögum.

Í þeirri fjárhæð sem ríkisstjórnin ætlar í þessar breytingar rúmast ekki að hafa frítekjumarkið alveg opið, að allir 67 ára og eldri megi vinna eins og þeir vilja án þess að það skerði tekjurnar. Aftur á móti væri það jöfnuður ef allir 67 ára og eldri gætu unnið eins og þeir vildu, haft þær tekjur sem þeir vildu án þess að það skerti lífeyrisgreiðslurnar, jafnræðisreglan væri þá viðhöfð. Við viljum ná þessari jafnræðisreglu með því að hafa frítekjumarkið 80 þús. kr. og tölum þá um jöfnuð. Að mínu mati hefði frítekjumarkið mátt vera hærra. Það hefði getað verið hærra án þess að sprengja þennan skala, án þess að sprengja þá upphæð sem ríkisstjórnin leggur til.

Þetta er ekki í fyrsta og eina skiptið sem við Pétur H. Blöndal erum ekki sammála og verðum það ekki. Þess vegna erum við í pólitík. Pétur H. Blöndal horfir frekar á einstaklinga og ákveðna hópa í staðinn fyrir að líta á jafnræðisregluna og taka þá sem heild og vinna að meiri jöfnuði, bæði innan þjóðfélagsins og innan einstakra hópa. Þetta verður því hvorki í (Forseti hringir.) fyrsta né síðasta skiptið sem við erum ósammála um leiðir.