134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:51]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegur er og verður um fyrirsjáanlega framtíð hryggjarstykkið í atvinnulífi landsbyggðarinnar og það skiptir því miklu máli að það stjórnkerfi sem við búum við tryggi að afkoma greinarinnar sé viðunandi og helst góð.

Vissulega er það rétt að framsal aflaheimilda skapar ákveðið vandamál í byggðum landsins, einkum og sér í lagi í minnstu þorpunum þar sem byggðajafnvægið er hvað viðkvæmast. En fram hjá því verður ekki horft að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur gerbreytt öllu rekstrarumhverfi greinarinnar. Á árunum 1980–1984, fyrir daga aflamarkskerfisins, var tap í sjávarútvegi á bilinu 5–9%. Það var ekki mikið atvinnuöryggi í greininni á þeim árum, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. (Gripið fram í: 10 sinnum meira en …)

Frá árinu 1991 hefur verið hagnaður í íslenskum sjávarútvegi á nærri því hverju einasta ári. Þegar litið er til hagsmuna landsbyggðarinnar má vera ljóst að viðvarandi taprekstur í sjávarútvegi hlýtur að lokum að leiða til stórkostlegra byggðavandamála (Gripið fram í.) og það er ekki langt síðan, virðulegur þingmaður, að biðstofur ráðherra voru fullar af útgerðarmönnum og sveitarstjórnarmönnum sem allir báðu um skattpeninga til að bjarga nærri gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtækjum í byggðarlögum sínum.

Vandi sjávarbyggðanna núna er margslunginn. Hann snýr ekki bara að þeim vanda sem er fólginn í framsali aflaheimilda. Niðurskurður þorskveiðiheimilda við upphaf síðasta áratugar fór t.d. mjög illa með byggðirnar á Vestfjörðum. Sú hagræðing sem hefur orðið í greininni og aðlögun hennar að minnkandi afla kemur m.a. fram í þeirri staðreynd að störfum við hefðbundinn sjávarútveg hefur farið fækkandi. Árið 1996 störfuðu 15.500 manns við fiskveiðar og fiskvinnslu en nú, rúmlega 10 árum síðar, eru þeir rúmlega 8.400. Auðvitað segir þetta til sín í byggðaþróuninni, nema hvað. En framsal aflaheimilda er lykillinn að því að hægt sé að reka sjávarútveg á Íslandi með skynsamlegum hætti og baráttumálið á því ekki að vera að (Forseti hringir.) vængstýfa íslenskan sjávarútveg með því að koma í veg fyrir aflaframsalið heldur einmitt að finna (Forseti hringir.) nýjar og betri leiðir til að tryggja byggðina í landinu öllu.