134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:18]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég þakka þá ágætu og málefnalegu umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag. Ég fór í andsvar við nokkra þingmenn í byrjun en ákvað síðan að fara í gegnum málefni þeirra og sjónarmið í ræðu í lokin.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að ekki væri skynsamlegt að tekjur eftir 70 ára aldur skertu ekki bætur og að þetta gengi ekki út á jöfnuð. Það er alveg hárrétt. Ég benti á það í framsögu minni með málinu að þetta væri ekki til að jafna tekjur. Ég nefndi meira að segja nokkur dæmi þar sem myndast ójöfnuður, bæði milli þeirra sem geta unnið og fá vinnu og hinna aldraðra sem líka eru 70 ára og geta ekki unnið eða fá ekki vinnu, t.d. bænda sem fá ekki vinnu. Ég nefndi líka mismuninn sem verður á milli tveggja manna sem vinna hlið við hlið og annar verður sjötugur og fær allt í einu bætur frá Tryggingastofnun. Þess vegna sagði ég að það væri svo mikilvægt að það væri sátt um þessa aðgerð.

En hún er að sjálfsögðu ekki til þess að jafna kjör aldraðra. Hún er til þess að nýta reynslu, kraft og vinnuþrek þeirra öldruðu sem vilja vinna áfram (Gripið fram í.) þjóðinni til góðs og þeim sjálfum til góðs í staðinn fyrir að vera hlutverkalaus heima. Þetta er meginmarkmiðið með þessari tillögu. Hún er sett fram nokkuð hratt og vel. Hún á að taka gildi eftir rúman mánuð vegna þess að þetta var sú aðgerð af þeim fjórum sem ríkisstjórnin hefur lagt til til að bæta stöðu þeirra aldraðra sem auðveldast var og einfaldast að koma í framkvæmd. Það eina sem við þurfum að breyta er að tekjur manns sem er orðinn sjötugur skerða ekki bætur Tryggingastofnunar, það er svo einfalt. Það er ekkert flóknara en svo. Þessari aðgerð var ekki ætlað að ganga út á jöfnuð.

Ég vil benda á það í þessu sambandi að sú tillaga sem sett er fram af minni hluta heilbrigðisnefndar til höfuðs þessari tillögu er ekki heldur til jöfnunar. Engan veginn. Þar er gert ráð fyrir því að menn geti haft 80 þús. kr. án þess að bætur Tryggingastofnunar skerðist, líka frá 67 ára, líka öryrkjar. Það er ekki til jöfnunar. Öryrki sem ekki getur unnið neitt og fær ekki vinnu fær ekki þessar 80 þús. kr. án skerðingar. Sá sem getur unnið fær 80 þús. kr. skerðingarlausar. Það er alls ekki til jöfnunar. Láti menn sér ekki detta það í hug. Alls ekki.

Báðar tillögurnar sem hér eru til umræðu, tillögur minni hluta og meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar, eru ekki til jöfnunar. Við skulum hafa það alveg á hreinu. Þær eru til þess að nýta kraft og vinnuþrek aldraðra í þágu þeirra sjálfra og þjóðfélagsins. Svo koma af því að sjálfsögðu skatttekjur sem ekki eru inni í kostnaðarmatinu en ættu náttúrlega að vera þar.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson var mjög neikvæður gagnvart þessum tillögum og ég get alveg hlustað á rök hans. Hann sagði að þetta gagnaðist ekki þeim sem verst eru settir. Það gerir það ekki. Það stóð ekki til. (Gripið fram í: Stóð ekki til?) Nei, það stóð ekki til, frú forseti. Til þess eru aðrar aðgerðir, t.d. 25 þús. kr. lágmarkið frá lífeyrissjóði. Það kemur þeim 10.500 manns til góða sem verst eru sett. Það er hugsað fyrir þau. Það var reyndar ekki krafa eldri borgara. En það reyndist vera meira mál að koma þeirri hugmynd í framkvæmd því að það þarf að vinna náið með lífeyrissjóðunum við framkvæmd þeirrar tillögu. En mér sýnist og ég verð sífellt sannfærðari um að sú tillaga muni koma þeim langbest sem verst eru sett í hópi aldraðra.

Svo var talað um það í stjórnarsáttmálanum að minnka skerðingar í 35%. Það er heldur ekki til jöfnunar, ef einhver skyldi halda það. Það er til að auka upp lífeyrinn og bætur þeirra sem hafa háan lífeyri úr lífeyrissjóði, háar tekjur eða háar fjármagnstekjur. Menn skulu bara átta sig á því en ekki tala svona út og suður um að minnka skerðingar og að það eigi að leiða til jöfnunar. Það er ekki til jöfnunar, að sjálfsögðu ekki. Ef menn ætla að hugsa um algjöra jöfnun verður 100% skerðing ofan á. Menn geta ekki talað svona tungum tveim eftir því sem hentar.

Hv. þm. Guðjón Kristjánsson ræddi mikið um ellilífeyrismörk. Það var mjög athyglisverð umræða og hún mætti gjarnan fara fram. Þannig er mál með vexti að 67 ára ellilífeyrismörkin sem menn hafa talað um að væri einhver heilagur sannleikur — (ÁI: Það er í lögum.) Það er í lögum, en við setjum lög, frú forseti. (Gripið fram í.) Ég vil benda á að Alþingi setur þessi lög. Við getum breytt þeim. Þetta er ekki heilagur sannleikur frá guði. Nei, þetta var sett í almannatryggingalögin árið 1936. Þessi aldursmörk eru búin að vera þar síðan og, það sem meira er, þetta má rekja allt aftur til Bismarcks í Þýskalandi, 1886 minnir mig. Þaðan koma þessi mörk og hvað hefur ekki breyst, frú forseti, í aldri þjóðarinnar síðan? Langlífi er miklu meira. Ég ætla ekki að nefna hvað fólk er miklu sprækara núna við 67 ára aldur en það var 1930, hvað þá 1880. Ég ætla ekki að bera það saman. Að vera enn þá föst í því að negla sig í einhverja tölu sem sett var fyrir öldum er bara fráleitt. Menn þurfa að fara að velta aðeins vöngum yfir því hvort þetta eigi rétt á sér í dag.

Ég tel, og það er ekkert leyndarmál svo ég beini máli mínu til hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, og ég hef margoft nefnt það að þessi ellilífeyrismörk eru mjög skemmandi fyrir hinn aldraða. Hann er nefnilega settur í ákveðinn bás og margir atvinnurekendur nota þetta til að segja mönnum upp, mönnum sem ekki vilja endilega hætta að vinna, vilja ekki endilega missa hlutverk í lífinu, vilja ekki endilega vera kippt út úr félagslegu umhverfi vinnustaðarins. Menn þurfa að hugsa dálítið meira.

Nei, þeir sem vara við hækkun á ellilífeyrismörkum, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, úr 67 ára aldri ganga út frá því sem vísu að vinnan sé kvöð og áþján. (Gripið fram í.) Annars væru þeir ekki að þessu, annars væri þetta valkvætt. Ef vinnan er skemmtun eða ánægja ættu menn að geta valið hvort þeir vildu vinna lengur.

Ég held nefnilega, og það er bjargföst skoðun mín, að velflest fólk líti sem betur fer ekki á vinnuna sem áþján. Það lítur á vinnuna sem ákveðna skemmtun, ákveðið hlutverk í lífinu og félagsskap með góðum vinnufélögum. Þá þurfum við líka að huga að því hvort eigi að fara að skikka menn heim, allt í einu upp úr þurru 67 ára. Ég tel ekki. Ég vil að menn skoði þessi mörk mjög vandlega.

Það eru líka alls konar mörk í gang í dag. 95 ára regla hjá B-deild LSR, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, gefur mönnum kost á því að fara á lífeyri allt niður í 60 ára aldur, fara á eftirlaun, fara á ellilífeyri 62 ára. Jesús minn, ég er að verða 63 ára og mér líður bara illa við þessa tilhugsun.

65 ára regla var líka einu sinni hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Þetta er ekkert heilagur sannleikur. Þegar atvinnuleysið var sem mest í Þýskalandi lækkuðu menn ellilífeyrismörk hjá konum niður í 62 ára aldur til að minnka atvinnuleysið. Það minnkaði reyndar ekki neitt. En margar bráðfrískar konur voru sendar heim.

Ég vildi gjarnan að menn ræddu betur um ellilífeyrismörk en ekki á þeim neikvæðu nótum sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi um þau. Ég vildi gjarnan t.d. að menn færu á ellilífeyri að hluta til, gætu tekið hluta af ellilífeyri, 60% ellilífeyri og unnið 40% eða tekið 40% ellilífeyri og unnið 60%. Ég vil að menn skoði alla þessa kosti. Að menn séu ekki sendir allt í einu upp úr þurru heim til sín. Gullúr eftir 25 ára gott starf í þágu fyrirtækisins og svo bara burt með þig, vinur, næsti. Mér finnst það ómanneskjulegt. Ég veit að mjög margir atvinnurekendur hugsa eins. Þeim finnst það líka ómanneskjulegt. Þetta frumvarp er ekki nein gildra sem hér er lögð til þess að hækka ellilífeyrisaldurinn. Það er margbúið að ræða um þetta. Auðvitað eiga menn að ræða um ellilífeyrismörkin alveg óháð því hvort menn megi vinna eftir sjötugt án þess að tekjurnar skerði bætur almannatrygginga.

Mér sýndist af ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að hann væri ekki einu sinni sáttur við 70 árin. Honum finnst ósanngjarnt að menn sem eru orðnir sjötugir fái bætur úr Tryggingastofnun óskertar, hvað þá þjóðfélagið allt. Þess vegna er tómt mál að tala um að lækka þessi mörk með því bara að hlusta á ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Hann var ekki sáttur við 70 árin. Hugsanlega væri hann sáttur við 80 ár, að menn sem eru orðnir áttræðir mættu vinna án þess að það skerti bætur Tryggingastofnunar. Honum finnst það kannski nægilega hár aldur til að menn séu búnir að skila sínu til þjóðfélagsins. Mér finnst 70 árin ágæt, fellst alveg á þau aldursmörk.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um að skipta mönnum í tvo hópa eftir þeirri reglu að hafa 67 ára, sem hún lítur á sem einhvern heilagan sannleika af því að sá aldur er í lögum sem Alþingi hefur sett, og síðan þessi 70 ár. Við erum með fullt af mörkum, t.d. geta menn frestað töku lífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 67 ára upp í 72 ára og aukið lífeyrisréttindin umtalsvert í staðinn. Þeir spara ríkinu lífeyrisgreiðslur. Þetta geta menn í dag. Það eru ekki mörk við 67 ára endilega þar. Það er tiltölulega nýbúið að breyta þessu þannig að menn geti unnið til 72 ára aldurs og frestað töku lífeyris og þá hækkar lífeyririnn, mig minnir um 30% fyrir þessi fimm ár sem er umtalsvert.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði líka um að reglan yki jöfnuð, ég er búinn að fara í gegnum það, en svo segir hún að öryrkjar sitji óbættir hjá garði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er bara ekki rétt. Það er nefnd að störfum sem er að fara í gegnum örorkumatið. Hefur ekki lítið verið fjallað um það. Þar á að fara að líta á getu mannsins, getu öryrkja til þess að sinna starfi en ekki alltaf að líta á vangetuna. Það á ekki að fara að stimpla menn ör-yrkja heldur að vita hvað þeir geta gert. Við skulum rækta þá eiginleika og reyna að koma öryrkjum út á vinnumarkað, þeim sem eru vinnufærir. Það er að störfum mikil nefnd sem ég bind miklar vonir við gagnvart öryrkjum. Það er ekki þannig að þeir sitji einhvern veginn óbættir hjá garði. Þá þekkja menn ekki vel til.

Hv. þingmaður segir að 25 þús. kr. mörkin hafi dregið út svartri atvinnustarfsemi. Hvað mundi þá algert skerðingarfrelsi tekna þeirra sem eru 70 ára og eldri draga úr svartri atvinnustarfsemi? Hafa ekki margir sjötugir og eldri hugsanlega stundað svarta atvinnustarfsemi samkvæmt því sem hv. þingmaður segir? Það mun virka nákvæmlega eins þar.

Síðan vill hann reka 67 ára fólk heim og kalla það svo aftur inn eftir 70 ára aldur. Þetta er ekki hugsað þannig, maður sem er 67 ára þarf ekkert að fara á eftirlaun. Ef hann er sprækur og telur sig geta unnið eftir sjötugt vinnur hann bara áfram, hefur sínar tekur og fær hugsanlega einhverjar bætur frá Tryggingastofnun, reyndar skertar, til sjötugs og eftir það óskertar.

Ég held að þetta sé bara ágætisniðurstaða sem við erum búin að fá hérna, að hvetja fólk til vinnu eftir sjötugt og njóta hæfileika þess og reynslu. Ég tel eftir ræðu hv. þm. Guðjón A. Kristjánssonar að mörkin við 70 ár séu rétt, það sé sátt um að á þeim aldri séu menn búnir að skila sínu til þjóðfélagsins en ekki endilega fyrir þann aldur.