134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

frestun á fundum Alþingis.

14. mál
[10:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eins og menn vita er ástæðan fyrir því að flutt er þingsályktunartillaga og Alþingi samþykkir frestun sú að það er talið nauðsynlegt til að ríkisstjórnin hafi ótvíræða heimild til að gefa út bráðabirgðalög. Í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram fyrr á fundinum og dró fram hversu mörg mál eru ófrágengin í samningum stjórnarflokkanna vil ég kanna hjá hæstv. forsætisráðherra hvort til standi af hálfu ríkisstjórnarinnar, þegar niðurstaða verður fengin í sum af þessum ágreiningsefnum, eins og t.d. um Íbúðalánasjóð, að framfylgja þeirri niðurstöðu með setningu bráðabirgðalaga.

Ég er ekkert að segja, virðulegi forseti, eða halda því fram að það standi til en mér þykir ástæða til að kalla eftir svörum ráðherra við þessu til að taka af allan vafa í þeim efnum því að ég teldi afar óheppilegt ef ríkisstjórnin ætlaði sér að lögfesta slíka niðurstöðu með þeim hætti.