134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:16]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Með þeirri breytingartillögu sem við erum að greiða atkvæði um leggur minni hlutinn, stjórnarandstaðan, til að ellilífeyrisþegar og örorkuþegar hafi 80 þús. kr. í frítekjumark á mánuði og það verði jafnt fyrir þennan hóp allan, 67 ára og eldri og alla öryrkja. Við leggjum áherslu á að eitt skuli yfir alla ganga meðal aldraðra og bendum á að einstaklingar á aldrinum 67–69 ára eru að jafnaði betur í stakk búnir til að afla sér atvinnutekna en þeir sem eru 70 ára og eldri. Framangreind hækkun frítekjumarksins mun auka möguleika lífeyrisþega til þátttöku á vinnumarkaðnum en slíkt mun skila sér bæði til einstaklinganna sjálfra og samfélagsins. Það er staðreynd að því meiri sem atvinnuþátttakan er, þeim mun meiri eru lífsgæðin og það mun skila sér í skatttekjum til ríkisins. Því kemur þetta sér vel fyrir alla.