134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[11:32]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. 3. gr. er algerlega óviðkomandi þeim breytingum á Stjórnarráðinu sem hér eru til umræðu. Greinin er runnin undan rifjum hæstv. forsætisráðherra og sett inn í frumvarpið algerlega án samráðs við stéttarfélög starfsmanna. Bæði BHM og BSRB eru algerlega mótfallin greininni, telja hana alvarlegt skref aftur á bak í jafnréttismálum og hvað varðar gegnsæi í stjórnsýslu og þróun réttindamála starfsmanna stjórnsýslunnar.

Ég vil líka halda því til haga að greinin gengur þvert á stefnu Samfylkingarinnar í þessum málum sem birtist skýrast í Borgarnesræðu hv. formanns Samfylkingarinnar.

Ég vil enn fremur halda því til haga að það er áratuga reynsla kvenna að leynd um stöðuveitingar og leynd um laun er ein helsta hindrun í vegi þeirra til starfsframa og jafnréttis. Ég segi nei.