134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[11:33]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Framsóknarmenn geta ekki fallist á þessa breytingu. Við teljum eðlilegt að áfram sé skylt að auglýsa, það sé aðalreglan að skylt sé að auglýsa störf innan Stjórnarráðsins. Þessi leið býður upp á ógagnsæi. Hún býður líka upp á að hinn hæfasti sé ekki valinn af því að ekki verður skylda að auglýsa úti á hinum almenna markaði, Stjórnarráðið er því að vissu leyti að loka sig af. Og það vekur furðu hve meiri hlutinn, sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn, rekur þetta mál hart í gegnum þingið af því að það hefur ekkert með breytingar á Stjórnarráðinu að gera. Þetta er laumufarþegi eins og hér hefur verið sagt úr pontu og þetta er í algerri andstöðu við bæði BSRB og BHM. Það vekur því furðu hve hart meiri hlutinn gengur fram á sumarþingi við að koma þessu máli í gegn sem tengist á engan hátt breytingum á Stjórnarráðinu. Það er rétt sem komið hefur fram að þetta er ekki konum í hag og það kemur mjög skýrt fram í umsögn BSRB. Við höfnum því þessari breytingu.