134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[12:45]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óska hv. 1. þm. Norðaust., Kristjáni Þór Júlíussyni, til hamingju með jómfrúrræðu sína og fagna því sem kom fram í orðum hans um þann stuðning sem Hafnarfjarðarbær og þeir sem þar búa mega eiga von á varðandi það að klára þetta mál allt til enda. Enda hef ég fundið fyrir því í umræðunni að það er ríkur stuðningur við það mál líkt og ég kom hér að áðan.

Ég vil hins vegar víkja að þeim orðum hans í ræðunni sem lúta að skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja og þeim tímamótum sem urðu í því rétt upp úr síðustu aldamótum. Ég skildi það svo, og vil þá fá það staðfest, að hv. þingmaður hafi verið sammála mér í því að það væri líka stórt verkefni sem biði okkar á hinu háa Alþingi við að taka upp umræður um tekjustofna sveitarfélaga og verkefnaflutning og að tekjustofnar sveitarfélaga eða tekjur þeirra hefðu á óbeinan hátt rýrnað þó að þær hafi aukist á umliðnum árum í kjölfar breytinganna.

Ég hjó eftir þessu í ræðu hans sem var um margt góð, og líklega sú besta sem hann hefur flutt hingað til á þinginu, en ég vildi fá það staðfest að það væri fullur skilningur okkar á milli í þessu máli.