134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það geti vel komið til greina. Það var vonandi skýrt í ræðu minni að miða við einhver tiltekin aldursmörk enda séu rífleg frítekjumörk í gildi upp að þeim aldri. Þetta væri þá bara einfaldlega þannig að menn hefðu ríflega möguleika, bæði aldraðir og öryrkjar, til að bæta stöðu sína, sá hluti hópsins sem það getur heilsu sinnar vegna og aðstöðu. Á einhverjum tilteknum tímapunkti yrði síðan sagt: Eftir það hættum við með öllu að horfa til tekna, vegna þess að þá segjum við: Þetta fólk er búið að leggja sitt af mörkum.

En mér finnst ekki koma til greina að gera þetta eins og ríkisstjórnin leggur þetta upp, að byrja á þeim enda. Þá skiptir í mínum huga ekki öllu máli hvort aldursmörkin eru 70 eða 75 ár. Væntanlega færu menn ekki með þau niður nema þá þannig að frá 67 ára aldri mættu menn hafa óskertar tekjur.

Annars þakka ég hv. þingmanni fyrir að staðfesta að það er byrjað á öfugum enda. Það er byrjað á þeim best settu. Hv. þingmaður sagði að númer tvö kæmi lakast setti hópurinn — en hann er látinn bíða. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að staðfesta að það er ekki byrjað á lakast setta hópnum. Hann kemur seinna, með haustskipunum kannski ef vel vill til. Og þá eru það þeir sem eru með mjög lágar eða engar lífeyrissjóðstekjur. Það er hárrétt. Það er hópur sem á tilfinnanlega erfitt. Um þriðjungur þeirra er líklega með tekjur undir þessum mörkum.

Móðir mín, rúmlega áttræð, er fyrrum húsfreyja í sveit. Það þarf enginn að segja mér neitt um það hvernig lífeyrisréttindum fjölmennra stétta kvenna á Íslandi er háttað nú um stundir. Ég veit allt um það.

Það er auðvitað mikið réttlætismál að taka á því, og það er jafnréttismál því að þarna eiga konur að langmestu leyti í hlut. Síðast á svo að taka á skerðingunni. Hér er það einfaldlega staðfest sem ég var að segja í ræðu minni, og ég þakka hv. þingmanni Ástu Möller hjartanlega fyrir að staðfesta að það er byrjað á öfugum enda.