134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:29]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að hugmyndirnar sem koma fram í stjórnarsáttmálanum eru ein heild. Auðvitað var álitamál hvar ætti að byrja. Ég verð að segja fyrir sjálfa mig að auðvitað hefði ég viljað byrja með því að taka allt saman inn, allt þetta þrennt. Af praktískum ástæðum þótti einfaldast að byrja þarna vegna þess að útfærslan á 25 þús. kr. sem á að fara í gegnum lífeyrissjóðina krefst þess að gengið verði til samninga við lífeyrissjóðina. Það var ekki hægt á svona stuttum tíma.

Aldraðir hafa sjálfir lagt á það áherslu að þeir hafi ekki tíma til að bíða. Okkur fannst það mikilvægt til að sýna alvöru málsins að við ætluðum virkilega að fara þessa leið að sýna þá á þessi spil sem voru þarna á hendi sem auðveldast var að koma í framkvæmd.

Hv. þingmaður sagði að auðvitað gæti komið til greina að við einhvern tiltekinn aldur væri hægt að horfa fram hjá atvinnutekjum. Það var niðurstaða okkar að þessi tiltekni aldur væri 70 ár. Þegar við ræddum við fulltrúa Landssambands eldri borgara til þess að viðra þessar hugmyndir lögðu þeir sjálfir fram að hann yrði 72 ár. Okkur fannst hins vegar 70 ára aldur heppilegur. Á þeim aldri væru almennt flestir hættir að vinna — (ÁRJ: Landssambandið …) Það voru viðræður sem fóru fram á milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins, það hefur komið fram, og fulltrúa Landssambands eldri borgara. Það er ekkert leyndarmál. Þessar hugmyndir voru viðraðar þar. Þeir tóku fullan þátt í að vinna þessar hugmyndir með okkur og útfæra þær.

70 ára aldurinn þótti okkur heppilegur vegna þess að þá væru flestir hættir að vinna. Ef hv. þingmaður ætlar að miða við 77 ára aldurinn eða áttræðisaldurinn, hverjum mun þetta þá gagnast? Ég spyr. Er það þetta ágæta fólk sem hann þekkir í Vestmannaeyjum? Það er miklu nær að færa þetta niður í 70 ára aldurinn þar sem þeir hafa raunverulega möguleika á að halda áfram starfi og nýta (Forseti hringir.) sér þetta ákvæði.