134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[15:25]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni, mér finnst viðleitni hans virðingarverð. Ég er alveg tilbúinn til að gefa honum eina 5 í einkunn fyrir viðleitni í málsvörn fyrir Samfylkinguna. (Gripið fram í: Það þýðir að hann hafi náð.) Þá hefur hann náð, en rétt naumlega. Það eru einhverjir sem vita hvar mörkin liggja.

Það getur verið góðra gjalda vert að vilja auka sveigjanleika í rekstri og skipulagi stofnana og starfsemi. En það er ekki gott ef sá sveigjanleiki er keyptur dýru verði á kostnað annarra og mikilvægari markmiða. Það er það sem stéttarfélögin eru hér að segja. Þau segja að það sé miklu meiru fórnað en vinnst með þessu hvað varðar gagnsæi í stjórnsýslunni, þeirri tryggingu sem gagnsæi er fyrir því að ekki séu ómálefnaleg sjónarmið látin ráða og minna þar sérstaklega á stöðu kvenna. Maður hélt að þetta væru rök sem einhvern tíma hefðu bitið á jafnaðarmenn. Þess vegna er undarlegt ef tæknihyggjan, rekstrarhyggjan eða hvað það nú er, ber menn ofurliði og þeir telja svo mikilvægt að geta rúttað starfsfólki fram og til baka að það eigi að ráða en ekki hitt að tryggja þessi mikilvægu markmið um gagnsæi, jöfn tækifæri og möguleika t.d. kvenna til þess að keppa um störf til jafns við karla innan hinnar opinberu stjórnsýslu. Ekki á ég í vandræðum með að velja að þetta er mikilvægara og á að koma á undan hinu sem hv. þingmaður reyndi að tína til málinu til varnar.