135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir árið 2008. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sýnir í raun hver stefna hennar er í öllum meginmálaflokkum eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði. Hann vonaði að fagurgali sinn frá kosningunum væri horfinn og hann væri kominn aftur til raunveruleikans sem blasti nú nakinn við.

Í frumvarpinu kemur fram stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, hvernig tekna skuli aflað, hver skuli greiða tekjurnar í ríkissjóð, hvernig þessari tekjuöflun skuli skipt niður á þegnana, á atvinnulífið, á velferðarkerfið, á fjárfestingar o.s.frv.

Með tölum í fjárlögum birtist með skýrum hætti munur á stjórnmálaflokkum. Þar birtist í raun hver er áhersla þeirra í þjóðfélagsmálum, heilbrigðismálum, menntamálum, málefnum elli- og örorkulífeyrisþega o.s.frv. Auðvitað skiptumst við gjarnan í tvær fylkingar, annars vegar í þá sem vill bregðast við og verja og efla sameiginlegt og samábyrgt velferðarkerfi og hins vegar í hina sem horfir á hin breiðu bök og segir kannski að hver sé sinnar gæfu smiður og vill reka þjóðfélagið samkvæmt því. Það er ekki stefna Vinstri grænna.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum ríka áherslu á samhjálpina, samábyrgðina og eflingu velferðarkerfisins, að allir fái að njóta sín, hver einstaklingur á sinn hátt með þeim möguleikum sem hann hefur og fær innan samábyrgs samfélags. Í kosningunum síðastliðið vor birtist þetta mjög greinilega í bæklingi sem við dreifðum um Allt annað líf. Við vildum skipta um frá þeirri hægri stjórn sem hér hafði verið á undanförnum árum og mótað efnahagslífið, mótað velferðarkerfið og var í rauninni á leiðinni að rústa velferðarkerfið og einkavæða almannaþjónustuna o.s.frv. Við vorum með aðrar áherslur í þessum efnum og munum halda þeim áfram á Alþingi. Við munum líka meta tillögur þessarar ríkisstjórnar, fjárlagafrumvarpið og annað sem frá henni kemur á grundvelli okkar stefnu. Við ætlum að vera trú og höfum verið trú okkar stefnu og munum verða það og þjóðin getur treyst því.

Við stilltum upp valkostum, velferðarsamfélag fyrir alla, ekki bara suma, en mér sýnist sú ríkisstjórn sem er nýtekin við ætla að halda óbreyttri þeirri vegferð sem rekin var í tíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þar sem Sjálfstæðisflokkurinn réði ferð, þar sem sífellt stærra gap var að myndast á milli þjóðfélagshópa eftir tekjum, kjörum og búsetu o.s.frv., og mér sýnist að svo eigi að halda áfram í því frumvarpi sem hér er lagt fram. Gegn þessu munum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði berjast.

Ég minni á eitt stærsta málið frá síðasta vetri þar sem stjórnarandstaðan, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn, stóð saman að einu stærsta máli sem við lögðum fram þar. Það var nýskipan lífeyrissjóðsmála þar sem við lögðum til, þessir þrír flokkar og stóðum svo sannarlega saman þá, að yrði eitt fyrsta málið sem tekið skyldi á við myndun nýrrar ríkisstjórnar að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega og annarra sem hefðu lægstu laun og kjör í samfélaginu. Þetta var grunntónninn í gegnum allan síðasta vetur. Þetta var einn grunntónninn í stefnuskrá okkar fyrir kosningarnar og við munum standa áfram við þá stefnuskrá.

Mér þykir því miður að horfa nú upp á það í því frumvarpi sem hér er lagt fram að það virðist sem ríkisstjórnin haldi áfram á óbreyttri braut frá því síðasta vetur. Við, stjórnarandstaðan þá, náðum þeim árangri saman með harðri baráttu að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks rann hvað eftir annað á rassinn með tillögur sínar og aðför að elli- og örorkulífeyrisþegum og kom á síðustu mánuðum kjörtímabilsins, í febrúar eða mars eða hvenær það var, með tillögur um hækkun á skattleysismörkum upp í 90 þús. kr., sem höfðu staðið í stað nokkur undanfarin ár, og frítekjumark upp á 25 þús. kr. Það er engu við þetta bætt í því frumvarpi sem hér er lagt fram, ekki sýnist mér það, þrátt fyrir að þetta væri stærsta kosningaloforð og pólitíska mál síðasta vetrar. Það gengur meira að segja svo langt nú í stefnuræðu forsætisráðherra að eldri borgarar eru gleymdir. Hann er gleymdur sá slagur sem tekinn var fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar í Reykjavík þar sem Sjálfstæðisflokkurinn breytti allt í einu um stefnu og fór að smjaðra fyrir gamla fólkinu. Þetta kosningamál í vor er ekki nefnt í stefnuskránni. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum áfram vera trú okkar hugsjónum. Við munum berjast fyrir kjörum elli- og örorkulífeyrisþega. Við munum knýja þessa ríkisstjórn til að koma til móts við okkar tölur í þessum efnum. Við höfum ekki gleymt þessum hópum.

Svona mætti áfram telja, herra forseti. Ég minni á það sem ég kom að í andsvari mínu hvar hin raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum læðist inn í frumvarpið. Reyndar kom hún skýrt fram í stefnuræðu forsætisráðherra þar sem hann sagði: „Við stefnum að því að einkavæða heilbrigðiskerfið og við erum hamingjusöm að vera búin að fá Samfylkinguna okkur við hlið í þeim efnum.“ Ég vona að hann reynist þar ekki sannspár og Samfylkingin standi í fæturna, sem fara nú hvor í sína áttina að mér sýnist oft og tíðum, eða að einhverjir samfylkingarmenn geti þó staðið gegn einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. En þetta laumast inn í fjárlagafrumvarpið.

Við sjáum t.d. hækkun á komugjöldum. Það eru skilaboðin til sjúklinga, til elli- og örorkulífeyrisþega, til þeirra sem þurfa að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það á að hækka komugjöld á heilbrigðisstofnunum og hækka komugjöld til sérfræðilækna. Hefur þetta ekki verið eitt pólitískasta átakamál undanfarinna ára? (Gripið fram í: Kratarnir komu þessu nú á ...) Jú, kratarnir komu þessu á þá og virðast vera trúir þessu áfram, því miður. Ég sé að fjármálaráðherra langar til að brosa. (Gripið fram í: ... hlær að krötunum.) Já, hann hlær. En ég ber enn þá von í brjósti að Samfylkingin láti ekki endalaust hlæja að sér.

Ef við víkjum aðeins að frumvarpinu sem slíku þá hef ég áður sagt hér og sagði í upphafi að þetta fjárlagafrumvarp er nánast hvað vinnu snertir bara vinnuplagg. Það er ekki búið að færa inn nokkra meginþætti í stefnu ríkisstjórnarinnar og ákvörðun hennar sem hún tók þó á síðastliðnu sumri og er eiginlega það eina sem hún hefur verið að mikla sig af. Það er annars vegar uppstokkun á ráðuneytum og tilfærslur á málaflokkum sem hafa mikil áhrif á það hvernig fjármunum er skipt innan stjórnsýslunnar, hvernig þetta skarast, hvernig þetta kemur til með að vinnast út. Það skiptir máli fyrir hvern málaflokk hvernig hann kemur út í þeim darraðardansi sem stiginn er þar yfir urð og grjót og sprungur sem ég á von á að þessi ríkisstjórn þurfi að berjast á hvað þetta varðar. Það er hvorki tekið tillit til þess né þeirra mótvægisaðgerða sem boðaðar voru, sem af mörgum eru ekki taldar merkilegar, en engu að síður væri mjög mikilvægt fyrir þingið og þjóðina að sjá þær útfærðar eða a.m.k. áform ríkisstjórnarinnar útfærð í fjárlagafrumvarpinu þannig að hægt væri að taka á þeim efnislega sundurliðað. Því er ekki að heilsa heldur er þetta sett að megninu til inn í eina upphæð sem síðan á að dreifast. Hvað þetta varðar er fjárlagafrumvarpið því bara lítið vinnuplagg.

Það kemur við kaunin á hæstv. fjármálaráðherra þegar verið er að tala um áreiðanleika fjárlagafrumvarpsins og áreiðanleika þess talnagrunns, gagnaöflunar sem fjárlög og fjárlagafrumvörp byggja á. Fjárlög og fjárlagafrumvarp er ekki bara plagg fyrir fjármálaráðherra, ríkisstjórnina eða þingið, þetta er grunnplagg til að meta og gera áætlanir í fjármálum og efnahagslífi þjóðarinnar. Þess vegna er mjög alvarlegt þegar grunnforsendur í fjárlagagerð eru svona slappar og með þeim hætti sem við upplifum nú. Bara á þessu eina ári — mig minnir að ég hafi spurt hæstv. fjármálaráðherra í fyrra hvort hann gæti gefið okkur einhverjar vísbendingar um að það væri meira að marka fjárlög hans fyrir árið 2006 en 2005 og hann svaraði með skætingi, þ.e. að engum kæmi þetta við. En hvað hefur gerst? Fjárlög innan ársins eru að breytast í grunntölum yfir 80 milljarða. Það er í sjálfu sér ekki slæmt að fá auknar tekjur ef þær eru vel fengnar en það er líka eins gott að geta þá vitað af því. Ég segi fyrir mig að ef ég hefði vitað að þessi mikli tekjuauki væri í vændum þá hefði ég viljað að við værum nú þegar búin að ráðstafa hluta af þeim tekjum á þessu ári til hækkunar á skattleysismörkum elli- og örorkulífeyrisþega, til hækkunar á grunnlífeyri, til hækkunar á launum og kjörum starfsfólks í umönnunargeiranum á hjúkrunarheimilum, á sjúkrahúsum svo við stæðum ekki frammi fyrir þeim hrikalega vanda nú að þar er mikil vá fyrir dyrum. Eða að setja aukið fjármagn til sveitarfélaganna, ekki aðeins vegna þessara mótvægisaðgerða og þess að mörg sveitarfélög úti um land hafa verið svelt á undanförnum árum heldur líka til að setja þar nýtt og sérmerkt fjármagn inn til þess að sveitarfélögin geti borgað starfsfólki leikskóla samkeppnishæf laun og kjör. Ég hefði heldur viljað að við værum búin að skapa þannig samfélagslegt jafnvægi ef við hefðum efni á að deila því út fremur en að standa hér og monta mig, þenja út brjóst og maga yfir því að eiga tugi milljarða í afgang á árinu sem ekki var gert ráð fyrir og horfa upp á vaxandi sundurleysi og félagslegt misrétti í samfélaginu. Ég hefði heldur viljað gera það, ég segi það alveg satt. Það mundum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gera ef við fengjum umboð til þess. Þess vegna spyr ég: Hvers konar viðsemjandi verður ríkissjóður á næsta ári þegar kjarasamningar verða lausir, með svona lélega vinnu að baki fjárlaga? Það skiptir máli upp á trúverðugleikann og þótt hæstv. fjármálaráðherra geri lítið úr trúverðugleika gerum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði það ekki, það skiptir máli hversu trúverðugur viðsemjandinn er. Er það trúverðugur viðsemjandi sem veit ekki hvort tekjur hans á næsta ári verða 60, 70, 80, 90 eða 100 millj. kr. meiri eða minni? Nei, hann er það ekki. Ég held að eitt af því mikilvægasta fyrir þingið sé að stofnuð verði við það sjálfstæð efnahagsstofa sem safni grunntölum og geti lagt mat á þróun efnahags- og fjármálalífs þjóðfélagsins og þingið eigi þar beinan aðgang að en verði ekki bara að hlusta á talnasafn fjármálaráðherra. Staðreyndin er sú að þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður skapaðist í rauninni vaxandi vantraust meðal þjóðarinnar og milli þingsins og framkvæmdarvaldsins hvað varðar grunnforsendur í framlagningu fjárlaga og grunnþætti í að meta framvindu efnahagslífsins.

Mig minnir að það hafi komið fram á blaðamannafundinum að fjármálaráðuneytið styddist enn í spálíkönum sínum við gamalt líkan frá Þjóðhagsstofnun sem væri orðið átta eða tíu ára gamalt, þeir hefðu ekkert betra til að styðjast við. Ég dreg ekki í efa að þeir reyna að gera hvað þeir geta og þó að fjármálaráðherra sé þar líka í hópi. En eitt það brýnasta fyrir okkur er að stofnuð verði sjálfstæð efnahagsstofa til að safna grunnupplýsingum til að vinna eftir og til að skapa traust í efnahags- og fjármálalífi landsins. Þetta frumvarp ber ekki merki um trausta vinnu, ekki síst ef við horfum til baka og sjáum hvernig fyrri frumvörp hafa gjörsamlega vikið frá þeim tölum sem lagðar hafa verið fram.

Ég get nefnt sem dæmi viðskiptajöfnuðinn sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Frá forsendum fjárlaga árið 2003 og því sem síðan varð reyndin breyttist hann um 860%. Viðskiptahallinn sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu árið 2004 breyttist frá forsendum fjárlaga til loka ársins um 180%, breyttist aðeins um 49% árið 2005 en frá forsendum fjárlaga til loka ársins 2006 breyttist hann um 110%. Og við horfum upp á hliðstætt fyrir árið í ár og á næsta ár. Eru þetta trúverðugar forsendur sem unnið er eftir? Nei.

Ég er alveg sammála hæstv. fjármálaráðherra að það verður heldur betur að breyta vinnu við fjárlagagerðina. Ég hef fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ítrekað lagt fram á undanförnum þingum tillögur til breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins þar sem einmitt er verið að taka á því að færa fjárveitingavaldið og ákvörðunarvaldið til Alþingis eins og því ber lögum samkvæmt. Ekki til fjármálaráðherra, ekki til Grímseyjarferjuráðherrans eða Hafnarfjarðarferjuráðherrans eða hvað hann vill kalla það sem er dæmigert fyrir það hvernig framkvæmdarvaldi er misbeitt, um það hvernig ráðist er í framkvæmdir og fjármögnun án heimilda á fjárlögum á ábyrgð fjármálaráðherra. Ef við lítum á þetta fjárlagafrumvarp þá stendur nákvæmlega sama setningin í heimildargreininni um Grímseyjarferjuna eða Hafnarfjarðarferjuna, að heimilt sé að selja núverandi Grímseyjarferju og ráðstafa andvirðinu til byggingar nýrrar ferju. Hann hefur ekki lært nokkurn skapaðan hlut frá því í umræðunni í sumar.

Sú hugmynd ráðherra hins vegar að færa eins konar banka inn í fjármálaráðuneytið, þ.e. að þar verði búinn til stór safnliður sem ráðherra úthluti síðan á hinar einstöku stofnanir og ráðuneyti innan ársins ef þurfa þykir, finnst mér alveg fráleit. Þá erum við að fara enn meira yfir í ráðherrafjárlög ef ég skil þessa framlagningu hæstv. ráðherra rétt. Ef við ætlum að fara að búa til einhvern banka í fjármálaráðuneytinu sem á síðan eftir geðþóttaákvörðun eða þeirri ákvörðun sem hverjum sýnist á hverjum tíma að deila út, þá erum við að færa fjárlagaákvörðunina frá þinginu. En ég skil að fjármálaráðherra langi náttúrlega til að fá aukin völd og fá að ráðstafa þessu sjálfur en hæstv. ráðherra á ekki að fá að ráða því. Það er af ýmsu að taka hér og auðvitað er margt gott sem lagt er fram í þessu fjárlagafrumvarpi til einstakra verka og þó það nú væri.

Frú forseti. Ræðutími minn í fyrri umferð er á þrotum en ég kem aftur síðar og fjalla þá meira um einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins efnislega hvað varðar útgjöld og aðra afmarkaða tekjuliði. Ég tek hins vegar undir orð hæstv. fjármálaráðherra um gott samstarf við fjárlagagerðina og það skal ekki standa á okkur fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að gera þær breytingar til batnaðar sem möguleiki er á að koma fram við þetta fjárlagafrumvarp.