135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

vernd fyrir þolendur heimilisofbeldis.

68. mál
[13:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar við þingmenn á síðasta löggjafarþingi, hinu 133., vorum að vinna breytingar á almennum hegningarlögum þróuðust mál með þeim hætti að á lokaspretti afgreiðslu málsins náðist um það samkomulag innan allsherjarnefndar Alþingis að til þess að ná niðurstöðu í ágreiningsefni sem hafði verið milli þingmanna í nefndinni sameinaðist hún um að senda til ríkisstjórnarinnar tvö mál sem höfðu verið til umfjöllunar í nefndinni, að hluta til í tengslum við umfjöllun um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga en að hluta til sem sjálfstæð úrlausnarefni. Málin tvö sem hér um ræðir voru lögð fram af okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hafa verið lögð fram oftar en einu sinni á löggjafarsamkomunni.

Ég nota þennan fyrirspurnatíma, virðulegi forseti, til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í afdrif þessara tveggja mála. Fyrst er það mál sem varðar úrlausnir fyrir fólk sem verður fyrir ofbeldi á heimilum sínum. Þetta er frumvarp um breytingar á meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum. Allsherjarnefnd lagði til að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar síðasta vor og spurning mín til hæstv. dómsmálaráðherra varðar það hvað hafi gerst í ráðuneytinu síðan þá, hvað líði skoðun ráðuneytisins á aðgerðum til að vernda þá sem verða fyrir ofbeldi á heimilum sínum.

Frumvarpið gengur út á það að lögregla fái í hendur úrræði til að fjarlægja ofbeldismann af heimili með sérstökum dómsúrskurði um þá gjörð eigi síðar en sólarhring eftir að gjörningurinn hefur verið framkvæmdur. Hér er verið að vísa til aðferðar sem þróuð hefur verið á löggjafarsamkomum nágrannalanda okkar. Hugmyndin kom upphaflega frá Austurríki. Austurríska þingið lögfesti ákvæði af þessu tagi fyrir nokkuð mörgum árum. Síðan hafa þjóðir í nágrannalöndum okkar farið að dæmi Austurríkismanna og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt mikla áherslu á það að sams konar leið verði farin hér.

Í vinnu allsherjarnefndar í fyrravor sýndi hæstv. dómsmálaráðherra okkur drög að frumvarpi um nálgunarbann og ég sé ekki betur en að það mál sé áfram á lista ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra. Eins og það var kynnt nefndinni í fyrra er það í sjálfu sér ekki sambærilegt við það mál sem vísað var til ríkisstjórnarinnar og ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra um hér.