135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

málefni lesblindra.

70. mál
[13:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem tengist brýnu viðfangsefni sem blasir við okkur sem komum að stefnumótun í skólakerfinu.

Innan íslenska skólasamfélagsins, svo að ég vindi mér í að svara fyrirspurninni, er almenn meðvitund um að nemendur tileinki sér þekkingu eftir ólíkum leiðum og því þurfi skólakerfið að geta mætt þörfum nemenda með hliðsjón af því. Þegar um er að ræða nemendur sem eiga í erfiðleikum með lestur eða lestrarnám þarf að taka mið af vanda hvers og eins og reyna síðan að laga viðfangsefnið sem best að þörfum þeirra.

Á síðustu áratugum hefur þekking á lestrarerfiðleikum aukist mjög mikið og ýmsar hugmyndir og leiðir og kenningar komið fram þar sem leitast er við að skýra vandann og benda á leiðir til að mæta honum. Í slíku samhengi hefur m.a. verið bent á að til bóta geti verið að líta ekki eingöngu á lestrarerfiðleika sem vandamál heldur viðfangsefni sem krefst nýrrar og öðruvísi nálgunar. Jafnframt hafa augu manna beinst að því að skoða þær afleiðingar sem það hefur fyrir nemandann að eiga í erfiðleikum með lestur. Nú þegar sýnt hefur verið fram á að takmörkuð lestrarfærni getur haft margvíslegar neikvæðar afleiðingar, er alveg ljóst að bregðast þarf við með markvissum hætti.

Til að efla þjónustu við nemendur með lesblindu eða leshömlun skipaði ég í nóvember 2006 títtnefnda nefnd sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á sem átti að setja skýrt fram tillögur um úrræði fyrir nemendur sem glíma einmitt við lestrarörðugleika. Nefndin skilaði skýrslu með tillögum til úrbóta í apríl 2007. Strax í framhaldi af því setti ég á fót framkvæmdahóp sem nú vinnur að því að hrinda í framkvæmd þessum tillögum nefndarinnar. Í skýrslunni er sérstök áhersla lögð á það við menntamálaráðuneytið að það beiti sér fyrir því hið fyrsta að efla upplýsingagjöf til kennara, foreldra og nemenda um lestrarerfiðleika og tengt efni. Mjög rík áhersla var lögð á þetta atriði í tillögum nefndarinnar.

Þess vegna hefur verið ákveðið að koma strax á fót heimasíðu um lestrarerfiðleika. Með þessu teljum við okkur vera að svara kalli foreldra barna með leserfiðleika. Ætlunin er að þar geti nemendur grunn- og framhaldsskóla, foreldrar og kennarar fundið upplýsandi efni um lestrarerfiðleika auk þess sem fyrirspurnum þar verður svarað. Stefnt er að því að heimasíðan verði opnuð í næsta mánuði.

Meðal annarra tillagna sem nú er þegar unnið að má nefna að lagt er til að Námsmatsstofnun verði falið að breyta samræmdu prófunum í 4. og 7. bekk þannig að þau nýtist til að skima lestrarvandann fyrr. Starfshópur ráðuneytisins er nú að skoða í samvinnu við Námsmatsstofnun hvernig útfæra megi þessa tillögu. En í skýrslunni er áréttað að þar til prófunum hefur verið breytt, þar til búið er að finna þá niðurstöðu sem hentar nemendunum, verði að koma til móts við nemendur með dyslexíu með sama hætti og gert var haustið 2006 og það er nú þegar búið að taka ákvörðun um að svo verði gert til þess að brúa bilið.

Lagðar eru til breytingar á gildandi lögum og reglum um grunn- og framhaldsskóla. Þar sem nú er unnið að endurskoðun þessara laga hefur þeim tilmælum verið beint til formanna endurskoðunarnefndanna sem eru með leik-, grunn- og framhaldsskólann til umfjöllunar að þeir hafi sérstaklega þessar tillögur nefndarinnar til hliðsjónar og m.a. varðandi þá kafla í grunnskólafrumvarpinu sem til að mynda snerta sérfræðiþjónustu innan skólakerfisins.

Einnig er í skýrslunni lögð áhersla á að árangursríkt sé að bregðast við seinkuðum málþroska og slakri hljóðkerfisvitund hjá börnunum áður en þau byrja í grunnskóla, þ.e. í leikskólanum. Menntamálaráðuneytið hefur sérstaklega óskað eftir fundi með fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis til að skoða hvort hugsanlegt sé að mæta þessum hópi í samvinnu við m.a. slíka miðstöð heilsuverndar barna. Þá er lagt til að skipuð verði nefnd til að vinna að framkvæmdaáætlun fyrir upplýsingar um læsi. Þetta kemur fram í skýrslunni með áherslu á sérstaka lestrarörðugleika. Stefnt er að því að funda þá í lok október með fulltrúum Háskólans á Akureyri og Kennaraháskólans, þessara kennaramenntunarstofnana, til að leiða fram þá sérþekkingu sem þörf er á til að koma þessu í framkvæmd. Í heildina eru þær tillögur sem voru settar fram af hálfu skýrsluhöfunda komnar í ákveðinn farveg og sumar hverjar nú þegar til framkvæmda.

Í öðru lagi var spurt hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að lesblindir nemendur í grunn- og framhaldsskólum eigi kost á lesblinduleiðréttingu sér og foreldrum sínum að kostnaðarlausu. Ég geri ráð fyrir því að þingmaðurinn, af því að talað hefur verið um lesblinduleiðréttingu, eigi hér við þá aðferðafræði sem hefur verið kennd við kenningar Rons Davis. Þeirri aðferðafræði hefur verið beitt hér á landi um nokkurra ára skeið en hún er ein af mörgum aðferðum sem menn hafa beitt og notað með þokkalegum árangri.

En ég tel mikilvægt að benda á að áfram verður (Forseti hringir.) unnið markvisst að því í öllu skólakerfinu, ekki síst í grunn- og framhaldsskólum, hvernig hægt verði að mæta beinlínis þörfum þessa hóps sem við erum alltaf að átta okkur betur og betur á að þarf á auknum stuðningi að halda.