135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

málefni lesblindra.

70. mál
[13:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þó að fyrirspurnin og svar hæstv. menntamálaráðherra hafi fyrst og fremst varðað börn og lestrarörðugleika þeirra langar mig að nota tækifærið og benda á það að við þurfum í auknum mæli að beina sjónum okkar að torlæsi í hópi fullorðinna.

Hlutfall þeirra sem hafa takmarkaða lestrarhæfni í hópi ófaglærðra á vinnumarkaði er mjög hátt á Íslandi. Því betur sem við stöndum að málum í grunnskólunum og því fyrr sem við greinum þessa erfiðleika eða þessa takmörkuðu lestrarhæfni, því betra. Minna verður úr vandamálinu þegar fólk eldist en sá hópur sem á við þennan vanda að stríða úti í samfélaginu þarfnast líka ákveðinna aðgerða. Ég held að við þurfum að átta okkur á því að vandamálið takmarkast hvorki við grunnskólann (Forseti hringir.) né framhaldsskólann.