135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007-2008.

5. mál
[15:41]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður standi við þau orð sín að hann flytji hér aðra ræðu á eftir. Mér finnst vanta skýringar á ýmsu sem kom fram í máli hans, til að mynda leggur hann til að loðnuafli verði skertur, en við hvaða mark? Af hverju kemur þá ekki fram í þessari tillögu hvað má veiða af loðnu? Mér finnast hin fiskifræðilegu rök hér ekki nægilega sterk, eins og t.d. varðandi þessar skyndilokanir.

Ég geri mér algjörlega grein fyrir því að það er hægt að finna margt að aðferðum Hafrannsóknastofnunar. Eitt af því sem sjómenn hafa sagt er t.d. að útfærsla á togararalli sé ekki nægilega góð og ekki rétt. Ríkisstjórnin hefur brugðist við því með því að verja núna á næstu þremur árum eða leggja til að varið verði 150 millj. til þess að skoða það.

Það sem mér fannst algjörlega skorta hjá hv. þingmanni varðandi fiskifræði hans er sú staðreynd sem mér finnst uggvænlegust í skýrslum Hafrannsóknastofnunar. Hún er þessi: Fiskurinn sem veiðist núna er miðað við aldur styttri, en hann er ekki horaður. Með öðrum orðum er að koma fram fiskur í stofninum sem virðist vaxa miklu hægar án þess að hann sé horaður. Það er áhyggjuefnið.

Ég spyr nú hv. þingmann: Gæti verið að það væri ástæðan fyrir því að það sé svona mikið af smáþorski uppi við landið núna, þ.e. að þetta væri eldri fiskur en styttri? Það væri mjög alvarleg staðreynd og alvarleg staða ef svo væri.

Hins vegar verð ég að segja að eitt er mér mjög erfitt að skilja í þessari tillögu hjá hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins. Þeir skammast út í hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að hafa skert kvótann. Samt sem áður viðurkenna þeir að það er háskaleg staða á miðunum vegna þess að þeir leggja líka til að aflinn verði skertur. Þeir vilja bara skerða minna. Ef þeir væru fullkomlega sannfærðir um málflutning sinn hefðu þeir auðvitað lagt til að það yrði engin skerðing. Það gera þeir ekki og það bendir til þess að þeir telji sig standa á heldur veikum grunni.