135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:42]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ekkert einkennilegt að þetta málefni sé tekið upp á þessum vettvangi eins og hæstv. fjármálaráðherra ýjaði að hér áðan. Hér er nefnilega um stóralvarlegt mál að ræða, og hvert er upphaf þessa máls? Það er að 15% hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja var seldur. Hvernig var hann seldur? Jú, Alþingi veitti framkvæmdarvaldinu heimild, án nokkurra skilyrða, til að selja þessi 15%. Það er grundvallaratriðið í þessari umræðu og allri umræðu um 6. gr. heimildir sem núverandi ríkisstjórn hefur í því fjárlagafrumvarpi sem hún hefur lagt fram.

Málið er að salan á Hitaveitu Suðurnesja fór fram af hálfu framkvæmdarvaldsins án þess að opin og lýðræðisleg umræða hefði farið fram í sölum Alþingis um það málefni. Að sjálfsögðu hefðum við þingmenn átt að ræða um það (HHj: Hver var formaður fjárlaganefndar?) hvernig ætti að standa að þeirri umræðu. Hver var formaður fjárlaganefndar? spyr hv. þm. Helgi Hjörvar sem þá var í fjárlaganefnd. Það var sá sem hér stendur. Það breytir samt ekki því að umræða um 15% sölu á Hitaveitu Suðurnesja fór ekki fram í sölum Alþingis (Gripið fram í: Hver var iðnaðarráðherra?) og hvernig ætti að standa að henni.

Hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Hér er nokkuð sem við þurfum að læra af. Það er mikilvægt og ekki til að hafa í flimtingum því að hér er um alvarlegt mál að ræða. Síðan er það mál út af fyrir sig hvernig borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hagar sér í málinu. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins ætlar sér að einkavæða Hitaveitu Suðurnesja. Ég vona að sá ágæti flokkur í borgarstjórn Reykjavíkur sé í minni hluta í því máli, en frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins hefur greinilega orðið ofan á í þessu máli því að það er einsetningur sjálfstæðismanna í borginni að selja hlut Orkuveitunnar (Forseti hringir.) í Hitaveitu Suðurnesja og það er grafalvarlegt mál, hæstv. forseti.