135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Sú einkavæðingarferð sem er nú hafin á orkulindum landsmanna er alveg forkastanleg. Í gildandi fjárlögum fyrir árið 2007 stendur í heimildagrein, með leyfi forseta:

„5.1 Að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

5.2 Að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.“

Svo mörg eru þau orð. Á grundvelli þessara heimildagreina er síðan Hitaveita Suðurnesja seld. Ríkið selur sinn hlut, 15%, í Hitaveitu Suðurnesja, ekki bara rör og lagnir, heldur líka þær orkuauðlindir, bæði nýttar og ónýttar, sem hitaveitan á og gerir það að skilyrði að opinberir aðilar, sveitarfélög og aðrir, geti ekki boðið í.

Sem betur fer hefur Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar sloppið enn þá en hún er hér á sölulista við hliðina á Hitaveitu Suðurnesja. Það er líka sóst eftir heimild til þess að mega selja hlut ríkisins sem er 20% í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Hver er þar stærsta eignin? Jú, það er einn stærsti hver á Íslandi, vatnsmesti hver í heimi, Deildartunguhver sem með þessari einu setningu fer á sölulista hjá ríkisstjórninni, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sem vill allt einkavæða. Samfylkingin segir ekki múkk. Framsókn studdi þetta líka með ráðum og dáð. (Gripið fram í.) Ég krefst þess að Deildartunguhver verði tekinn af sölulista.