135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007. Við höfum fyrr á þessu hausti farið í gegnum einstakar forsendur fjárlaga þessa árs, borið áætlanir saman við það sem lagt var upp með í fjárlögunum fyrir ári síðan. Ég ætla svo sem ekki að fara mjög ítarlega í það mál hér en ég vitna bara til þess hversu gríðarlegt vandaverk áætlanagerð af hálfu fjármálaráðherra er við fjárlagavinnu og allar helstu grunntölur fyrir efnahags- og fjármálaáætlanir í þjóðfélaginu.

Viðskiptahallinn á síðasta ári sem hafði verið áætlaður, að mig minnir, kringum 13,2% fyrir árið 2006 reyndist síðan einhvers staðar í kringum 26% sem lýsir í hnotskurn hvernig aðrar forsendur eru. Sama er í ár, viðskiptahallinn í ár var áætlaður, að mig minnir, einhvers staðar í kringum rúm 10% en núna er spáð að hann verði tæp 16% og reynsla undanfarinna ára sýnir okkur að það er álíka merkileg ágiskunartala. Hann getur þess vegna lent í 18 eða 20% í lok árs, miðað við reynslu fyrri ára. Sama er með aðrar forsendur eins og vexti, mig minnir að þegar hækkunarferli á stýrivöxtum fór í gang fyrir um ári síðan hafi verið gert ráð fyrir því að stýrivextir yrðu farnir að lækka aftur en núna er því spáð að það verði á næsta ári. Þetta er sem sagt sama spá og var fyrir ári síðan. Þá var því líka spáð að stýrivextir færu að lækka á næsta ári þannig að það ætti að vera óþarfi að prenta þessar spár upp árlega. Þær eru jafnómarkvissar.

Við sjáum svo líka tekjuforsendur fyrir ríkissjóð á tekjum og gjöldum, bara innan ársins frá því að fjárlög voru samþykkt fyrir ári síðan og þess sem nú er gert ráð fyrir munar samtals bæði á tekjum og gjöldum yfir 80 milljörðum kr. Það má vera að sumum finnst gott að fá svona fjármagn óvænt eins og hæstv. ráðherra hefur lýst því að það sé skemmtilegt og ánægjulegt og það er hægt að taka undir það að því marki en það sýnir hversu forsendur sem stuðst er við eru veikar og illa unnar fyrir fjárlög innan ársins. Þetta held ég reyndar að sé einn höfuðvandi okkar sem erum að koma að stjórn landsmála hvað þessari grunnvinnu er ábótavant.

Hitt atriðið sem ég ætlaði síðan að koma að í upphafi, herra forseti, eru þá sjálf fjárreiðulögin sem skapa þennan ramma en eins og við þekkjum þá eru fjárlög lögð fram í upphafi þings hvert haust fyrir næsta ár. Þá leggur ríkisstjórnin fram sitt fjárlagafrumvarp sem er í rauninni stefna viðkomandi ríkisstjórnar í fjármálum ríkisins. Síðan fer hún til meðhöndlunar í fjárlaganefnd þingsins og geta verið gerðar á því nokkrar breytingar en þó eru þær sjaldan í neinum veigamiklum atriðum. Sú hefur ekki verið reynslan. Fjárlög fyrir næsta ár eru síðan samþykkt skömmu fyrir jól.

Svo koma fjáraukalög sem eru líka lögð fram í upphafi þings fyrir þær breytingar sem talið er nauðsynlegt að þurfi að gera á fjárlögum ársins fyrir þetta yfirstandandi ár. Ég hef í sjálfu sér gagnrýnt þessi vinnubrögð og lagt þunga áherslu á að samkvæmt lögum er það Alþingi sem hefur og ber ábyrgð á fjárveitingavaldinu, fer með það vald og þá ábyrgð, ekki framkvæmdarvaldið. Framkvæmdarvaldinu er aðeins ætlað að vinna úr þeim verkefnum sem Alþingi fær því. Ég hef því lagt áherslu á að lögum um fjárreiður ríkisins yrði breytt með þeim hætti að fjárlagafrumvarp kæmi fram með líkum hætti og nú er að unnið en það verði skylda að leggja fram fjáraukalög að vori í þinglok sem tækju á þeim meginbreytingum sem orðið hafa innan þingsins. Það hafa getað verið samþykkt ný frumvörp sem kosta útgjöld og einnig breytingar á hinum ýmsu forsendum einstakra fjárlagaliða og þá tæki Alþingi afstöðu til þeirra og gengi frá því.

Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins er lögð áhersla á að ekkert gjald má greiða úr ríkissjóði án heimildar Alþingis. Þó er til undantekning á því, sú eina undantekning sem er í 33. gr. fjárreiðulaganna en þar stendur, með leyfi forseta:

„Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.“

Þetta er mjög skýrt og ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að velkjast í vafa um framkvæmd þessa. Um fjáraukalögin stendur hins vegar í V. kafla, í 43. gr. fjárreiðulaganna, með leyfi forseta:

„Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.“

Í 44. gr. er talið upp hvað fjáraukalög geta kallað á, með leyfi forseta:

„Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skal leitað í lokafjárlögum.“

Hér er sem sagt alveg skýrt kveðið á um vinnulag og hvernig þetta skuli gert. En það hefur einnig verið mikið vandamál með framkvæmdarvaldið að það hefur í raun tekið sér fjárveitingavald. Þegar við nú hér stöndum með frumvarp til fjáraukalaga í höndum þá er að meginþorra búið að ákveða eða samþykkja að inna af hendi þær greiðslur sem verið er að leita heimilda eftir og það er ekki samkvæmt lögunum og á þetta hefur mjög ítrekað verið bent en ráðherra ekki farið eftir því. Ég tel því einna brýnast að það sé skerpt á þessum ákvæðum í fjárreiðulögunum og ekki aðeins hvað varðar fjárheimildirnar sjálfar heldur líka hvað varðar annan lið í þessu fjárlagadæmi sem heitir heimildargreinar, þar sem leitað er eftir heimildum, tiltölulega opnum heimildum til að selja, kaupa eða ráðstafa fjármunum ríkisins án þess að bera það að öðru leyti undir Alþingi.

Við ræddum í upphafi þings eitt dæmið sem var sala á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja þar sem veitt er slík heimild með örstuttri setningu sem getur síðan kollvarpað eða sett allt orkuveitukerfi landsmanna flot. Það sér hver heilvita maður að það er ekki hægt að una því og eins og ég minntist á áðan þá er hérna m.a. einnig opin heimild til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og eins og fjármálaráðherra beitti þeirri heimild gagnvart Hitaveitu Suðurnesja þá er alveg eins hægt að beita þessari heimild með sama hætti gagnvart Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar en ríkið á einmitt 20 eða tæplega 21% í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og þar með líka sinn hlut í einum vatnsmesta hver landsins, Deildartunguhver. Með þessum heimildum getur því ríkið sett Svartsengi og Krýsuvík, hitasvæðin þar, á uppboð með sama hætti og Deildartunguhver.

Eins er það með svokallaða Grímseyjarferju að heimildin til að fara í þær endurbætur eða framkvæmdir varðandi Grímseyjarferju er bara í einni slíkri opinni heimild, en í lið 7.9 stendur, með leyfi forseta:

„Að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju.“

Þetta er öll heimildin. Fátt hefur meir verið hér um rætt nú seinni partinn í sumar en hvernig farið hefur verið með þá fjárráðstöfunarheimild.

Ég vil vitna í það bréf sem ég var áður með og hæstv. fjármálaráðherra víkur sér undan að svara. Ég vek athygli forseta á því með hvaða hætti hæstv. fjármálaráðherra víkur sér undan ábyrgð og víkur sér undan því að svara beinum spurningum sem hann er spurður um. Maður skyldi þó hafa haldið að hann kæmi lesinn í tíma varðandi Grímseyjarferjuna en sú heimild sem gefin er til að ráðast í þær framkvæmdir er hér í bréfi sem er dagsett 25. nóv. 2005. Þar er sagt með einni setningu sem hæstv. fjármálaráðherra ber ábyrgð á, með leyfi forseta:

„Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til að nýta ónotaðar heimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessari vöntun nemur.“

Herra forseti. Það þarf mikið hugmyndaflug eða afar lélegt hugmyndaflug til að halda að hægt sé að beita þessari grein til þess að opna fyrir heimild upp á fleiri hundruð millj. kr. verkefni.

Nú vil ég taka það fram að ég er mjög hlynntur því að landsmenn fái góða ferju sem gengur á milli fastalandsins og Grímseyjar. Ég hef lagt til að það verði skoðað hvort ekki væri réttast að kaupa nýja ferju eða smíða nýja ferju sem uppfyllti þá þau skilyrði sem væri verið að sækjast eftir. En á þessari stundu, eftir alla þá umfjöllun sem hefur verið í fjárlaganefnd — meiri hlutinn guggnaði á því að fylgja málinu eftir til loka. Ef við spyrðum formann fjárlaganefndar að því hvaða kostnaður eða fjármagn væri komið í Grímseyjarferjuna efast ég um að hann gæti svarað því. Alla vega stendur málið þar.

Þetta mál kom til umræðu á Alþingi síðasta vetur í orðaskiptum við núv. hæstv. samgönguráðherra og fyrrv. samgönguráðherra sem nú er forseti þingsins. Þá spyr hv. þingmaður, sem nú er samgönguráðherra, með leyfi forseta:

„Hvenær er áætlað að nýja Grímseyjarferjan verði tilbúin til notkunar, og hvenær átti hún að vera tilbúin samkvæmt útboði?“

„Samkvæmt endurskoðaðri verkáætlun verktaka, dagsettri 13. janúar sl., eru verklok nú áætluð 25. maí 2007. Samkvæmt upphaflegum samningi eftir útboð voru verklok áætluð 31. október 2006, þannig að ljóst er að mikil seinkun hefur orðið …“.

Þá hafði því þegar seinkað um eitt ár en samt var enn unnið eftir þessari verkáætlun.

Ég ítreka því spurningu mína til hæstv. fjármálaráðherra: Hver er staða þessa verks nú? Ég vek athygli forseta á því að fylgjast með því hvort ráðherra ætlar enn að hafna því að svara, og við erum að ræða fjáraukalög og framkvæmd fjárlaga á árinu.

Önnur atriði sem væri líka rétt að minnast á, um framkvæmd fjárlaga, og ég skrifaði einmitt fjárlaganefnd út af, er ráðstöfun á fjármagni til heræfinga. Ég vísa til þess sem stendur í lögum um fjárreiður ríkisins að ekkert gjald má inna af hendi nema það hafi áður fengið samþykki Alþingis. Þó stendur hér undir liðnum utanríkisráðuneyti að lagt sé til að veitt verði — takið eftir því að textinn í frumvarpinu, það er lagt til að veitt verði — 45 millj. kr. fjárheimild til sameiginlegra heræfinga Íslands og Bandaríkjanna, Norðurvíkingur 2007.

Þeir sem fylgjast með fréttum töldu sig nú vita af því að þessar heræfingar fóru fram nú síðsumars. Er það ekki rétt, hæstv. fjármálaráðherra, fóru þær ekki fram þá? Og kom þetta svo skyndilega upp á að ekki væri hægt að taka það með inn á fjárlög ársins þá? Eða er það samkvæmt fjárreiðulögum að vera að sækja um heimild eftir á til að greiða þessar heræfingar? Nei, þetta er brot á fjárreiðulögum og ég þarf ekkert að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því. Það er brot á fjárreiðulögum að sækja um eftir á 45 millj. kr. heimild til þess að greiða fyrir heræfingar sem fóru fram í sumar. Hvort sem menn eru með eða á móti þessum heræfingum er þetta ekki samkvæmt fjárreiðulögunum.

Hægt er að tilgreina fleiri slík dæmi í frumvarpinu um að fjárreiðulögin séu virt að vettugi. Á fjáraukalögunum, neyðarráðstöfun, er farið fram á 9,8 millj. kr. til þess að skipta um bifreið hjá forseta Íslands. Það er sjálfsagt að hann hafi góðan bíl en þurfti það endilega að flokkast undir neyðartilvik?

Sama má segja með háskólatorg. Óskað er eftir 282 millj. kr. fjárheimild til að ljúka framkvæmdum við háskólatorg. Jú, vafalaust þarf að ljúka framkvæmdum við háskólatorg en var það einhver neyðarráðstöfun sem þarf að koma inn í fjáraukalög? Var það ekki allt saman fyrirséð við fjárlagagerðina í fyrra?

Hægt er að nefna fleiri dæmi. Þjóðleikhúsið, það er afar brýnt að gera við það. Á það var bent af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við umræður um fjárlög í fyrra og var einmitt gagnrýnt að ekki skyldi vera fjármagn á fjárlögum til að gera við Þjóðleikhúsið. En nú kemur hér, góðu heilli, 130 millj. kr. framlag svo að unnt verði að ljúka utanhússviðgerðum á Þjóðleikhúsinu. Jú, gott mál, en það átti ekki að fara inn á fjáraukalög, það átti heldur að fara að tillögum við gerð fjárlaga því að þetta var vitað.

Svona má lengi telja, góð mál en þau eiga ekki að koma svona inn. Þátttaka í bókakaupstefnu í Frankfurt, jú, jú, besta mál, en á það að koma inn sem fjáraukalagamál? Nei. Svona getum við rakið þessi mál áfram þannig að það skortir enn mikið á að fjármálaráðherra virði fjárreiðulög. Það hefur ekkert með það að segja hvort málið sé gott eða slæmt. Margt af því sem verið er að gera tillögur um í fjáraukalögum átti með eðlilegum hætti að koma inn í fjárlögin sjálf enda var það vitað.

Hins vegar eru málaflokkar sem standa út af. Ég spyr um Landspítalann. Við bentum á það fyrir ári að fjárveitingar til Landspítalans væru allt of lágar á þessu ári. Við töldum að þær væru að minnsta kosti 1 milljarði of lágar. Við höfum upplýsingar um það nú að hann var skilinn eftir með um 800 millj. kr. halla á síðasta ári og nú er hallinn á Landspítalanum kominn eitthvað hátt á 2 milljarð kr. á þessu ári. Það er ekkert rætt um það eða tekið á því hér.

Það skiptir máli að (Forseti hringir.) fjárlögin sjálf séu vel unnin en á það hefur skort og skortir enn.