135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé mesti barnaskapur að hafa hv. þingmann sem ráðherra. Ég býst við að það sé vandinn. Hæstv. ráðherra blandar starfsmönnum fjármálaráðuneytisins ágætum inn í umræðuna og skýtur sér á bak við það. Þeir koma ... (Gripið fram í.) Þeir komu á fund fjárlaganefndar og gerðu mjög vel grein fyrir sínum málum, mjög vel grein fyrir þeirri vinnu sem var unnin og prýðilega og sögðu meðal annars líka að það vantaði ákveðinn talnagrunn sem hefði ekki verið unninn síðan Þjóðhagsstofnun var lögð niður, menn væru enn þá að nota líkön frá þeim tíma og það hefði margt breyst sem gerði meðal annars þetta óvissara. Þetta ætti hæstv. fjármálaráðherra að vita en ekki koma hér eins og sá sem ekkert veit. Hvort sem það er efnahagsstofa þingsins eða aðrir sem vinna þessi gögn þá þarf að vinna þau. Ég veit að starfsmenn fjármálaráðuneytisins eru mjög hæfir og geta gert það. En það þarf að fara í þá vinnu.

Ég hef bent á þetta áður, í fyrra, í hittiðfyrra og árið þar áður — þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ég geri það — og áfram þverskallast hæstv. ráðherra eins við heyrðum áðan. Ég spurði hann um Grímseyjarferjuna. Nei. Hann gat engu svarað um Grímseyjarferjuna, engu. Er hún og það mál þó kannski dæmigerðast fyrir embættisfærslu fjármálaráðherrans núna síðustu mánuðina.