135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi umræðuna um fjáraukalögin sem slík þá hafa þau bara ákveðið stjórnsýslulegt hlutverk. Þau eru fyrst og fremst til þess að leiðrétta eða taka inn skyndilega nauðsynlegar breytingar innan ársins. Þau eru ekki fjárlög sem slík þannig að þau eru ekkert stefnumarkandi sem slík nema að því marki sem þau taka þá inn atriði sem hafa verið samþykkt áður í lögum. Það er nú þannig. Ég hef meira að segja flutt ítrekað frumvarp um breytingar á þessum lögum þannig að það liggur nú fyrir.

Hitt kemur mér á óvart, herra forseti, að hv. þingmaður skuli hlaupa til varnar vinnubrögðum fjármálaráðherra varðandi umgengni við fjárreiðulögin. Ég man nefnilega að núverandi samgönguráðherra — og ég er með hér útskrift af nokkrum ræðum hans — gagnrýndi þetta sem hv. þingmaður er nú að verja.

Það að geta ekki gefið upplýsingar um kostnaðurinn núna við ferjuna, hver áætlaður heildarkostnaður við lok smíðinnar sé, hvenær ferjan verði tilbúin, að geta ekki svarað þessum þrem spurningum eftir alla umræðuna og stöðu málsins, athugasemdir frá Ríkisendurskoðun og bréfa- og skeytasendingar milli fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar, að geta ekki svarað þessum þrem spurningum nú, einmitt þegar þetta heyrir undir meðferð fjárlaga ársins og fjáraukalög, finnst mér lélegt.