135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[12:26]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir ræðu hans. Hv. þm. Bjarni Harðarson er talsmaður Framsóknarflokksins í ríkisfjármálum og ég verð að segja að miðað við málflutning hans gerir hann eiginlega tilkall til þess að verða skuggaráðherra stjórnarandstöðunnar en við vorum auðvitað búin að útnefna hv. þm. Jón Bjarnason, talsmann vinstri grænna í ríkisfjármálum, sem skuggaráðherra. (Gripið fram í: Ég er ...) Ég veit að stjórnarandstaðan gerir þetta upp sín á milli og hugsanlega færir þetta til og frá.

Ég vil hins vegar rétt koma að ábendingu varðandi atriði sem kom fram í upphafi ræðu hv. þingmanns varðandi breytingar á verklagi og ýmsu sem lýtur að þeim hlutum. Það kom fram í ræðu um fjárlagafrumvarpið á fimmtudaginn að boðaðar eru af hálfu fjárlaganefndar allrar ákveðnar breytingar sem við höfum verið að vinna að og ég finn ekki betur en að það sé ákveðinn hljómgrunnur í þeim efnum. Vissulega mun það taka ákveðinn tíma en umfram allt er hljómgrunnur fyrir því í fjárlaganefnd og einnig hjá fjármálaráðuneyti og hæstv. fjármálaráðherra svo og forseta þingsins að ákveðnir þættir í vinnu fjárlaganefndar og verklagi verði með öðrum hætti en verið hefur. Ég vil ítreka það að þingmenn allir munu fá tækifæri til að koma að því líkt og við höfum verið að ganga frá síðustu daga varðandi skipan í starfshóp til að fylgja eftir ákveðnum málum sem tengjast m.a. fjárreiðulögum og öðru.