135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[12:33]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er oft spurningin um sanngirni eða ósanngirni í garð einstaklinga. Í ræðu minni vildi ég ekki á neinn hátt mæla móti hv. þm. Bjarna Harðarsyni af ósanngirni og skal alveg játa að ef honum hefur þótt eitthvað skorta á í þeim efnum þá skal ég taka undir það sjónarmið hans að við skulum ekki leggja ábyrgðina í hendur sérfræðinga, heldur þarf alltaf að koma til þetta pólitíska mat sem við hljótum að standa og falla með við ákvarðanir sem okkur er ætlað að taka.

Ég hlýt hins vegar að mótmæla þeim orðum sem hann hefur hér um verklag okkar sjálfstæðismanna og kýs að túlka orð hans með þeim hætti að hann hafi verið að reyna að skýra út þá skringilegu staðhæfingu sína að pólitísk völd Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratug eða meira hefðu ekki verið í neinu réttu hlutfalli við það fylgi sem hann hefur uppskorið úr kosningum. Því þannig geta menn ekki snúið út úr staðreyndunum. Við sjálfstæðismenn höfum ekki staðið þannig að verkum, að við höfum allra síst ætlað hv. framsóknarmönnum í ríkisstjórnarsamstarfi að móta fyrir okkur tillögur. Til þess hefur flokkurinn ekki haft kjörfylgi að við gætum treyst því að bakgrunnurinn væri nógu drjúgur til að þær væru á vetur setjandi.

Ég vænti þess að í því samstarfi sem Sjálfstæðisflokkurinn á núna við Samfylkinguna sé miklu breiðara bakland og þær tillögur sem komi fram muni halda til muna betur en áður hafi gert.