135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[13:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson skilji það ekki að það er ör framþróun í öllum atvinnugreinum. Sú grein sem hann tilheyrði áður en hann kom hingað, þ.e. stétt sjómanna, er að breytast vegna þess að bæði um borð í fiskiskipum hefur tæknin haldið innreið sína og eins við verkun fisks í landi. Þetta þýðir að sjálfkrafa fækkar og hefur fækkað í þessum stéttum um langt árabil. Það er því miður ekkert sem við getum gert til þess að koma í veg fyrir það og við viljum það ekki einu sinni. Við getum ekki staðið í vegi fyrir tækninni.

Það þýðir það einfaldlega, herra forseti, að ef við ætlum að halda byggð úti á landi þá þurfum við að reyna að byggja upp aðrar atvinnugreinar sem ekki eru háðar hinum hvikula sjávarafla. Það er það, ólíkt Frjálslynda flokknum, sem sveitarstjórnirnar báðu um. Það var þess vegna sem í þeim tillögum sem ég og hæstv. fjármálaráðherra lögðum fyrir ríkisstjórn og liggja núna fyrir Alþingi, að verið er að setja 600 millj. í að efla menntastigið á landsbyggðinni. Það er verið að setja samtals 800 millj. með einhverjum hætti til þess að efla nýsköpun starfa á landsbyggðinni og þjálfun og endurmenntun sem tengist því. Það er verið að leggja fast að 500 millj. í hafrannsóknir. Svo kemur hv. þingmaður og gerir bara lítið úr þessu.

Ég spyr hv. þingmann, af því hann talar heldur háðulega um þá framkvæmd að flýta framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð: Vill hann þá ekki líka koma hérna og spotta framlag ríkisstjórnarinnar til þess að styrkja háskólasetur á Vestfjörðum? Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er að gera hérna.

Hv. þingmaður. Ég er ekki viss um að þeir sem búa á ýmsum stöðum á landinu sem njóta stuðnings og liðsinnis ríkisstjórnarinnar með þessum fjáraukalögum og fjárlagafrumvarpinu, séu sammála honum. Hann ætti að fara til Hafnar í Hornafirði, til Sauðárkróks, til Hólmavíkur, til Ísafjarðar, til Bolungarvíkur, til Patreksfjarðar, til Ólafsfjarðar, til Stykkishólms, og ég gæti haldið áfram. Þetta eru þeir staðir þar sem menn tóku fagnandi framlögum (Forseti hringir.) til þess að efla nýsköpun á þessum stöðum. Svo kemur hv. þingmaður, formaður Frjálslynda flokksins, og gerir bara lítið úr þessu. (Forseti hringir.)