135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[13:09]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Það er ekki fjallað sérstaklega um Grímseyjarferjuna í fjáraukalögunum því að Vegagerðin sem fer með það lögbundna hlutverk að byggja þessa ferju hefur nægar fjárheimildir til þess að standa undir verkinu. Það hefur verið þannig undanfarin ár, hún hefur haft ríflegar fjárheimildir og ekki nýtt þær allar og hefur þess vegna getað farið í þetta lögbundna verkefni sitt án þess að það væri sérstaklega áætlað fyrir því á þessum árum. En hins vegar er gert ráð fyrir því í samgönguáætlun að það verði komið fjármagn til þess á næstu árum og m.a. er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi ársins 2008, það fæst inn á þennan framkvæmdalið þar.

Ég átti eftir að svara tveimur öðrum spurningum hv. þingmanns, annars vegar varðandi örorkubyrðina. Þar var um samkomulag að ræða sem gilti til að mig minnir þriggja ára með stighækkandi framlögum, ég er bara með þetta eftir minni. Síðan varðandi afskriftir skattkrafna, þá er ég ekki með tölur um niðurbrot á því. En það verður sjálfsagt hægt að koma með slíkar tölur og kynna í fjárlaganefndinni við yfirferð málsins.

En eðli málsins samkvæmt, þegar tekjurnar aukast, skatttekjurnar aukast, þá eykst það sem þarf að leggja til hliðar vegna skattaafskriftanna. Því miður er enn of mikið um áætlanir á sköttum í skattkerfinu þó að þær hafi minnkað á síðustu árum, samanber það sem kemur fram í umfjöllun Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2006.