135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:56]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Það er ljóst að sjávarbyggðir landsins verða fyrir geipilegum áföllum þegar hinn mikli niðurskurður á heimildum til þorskveiða fer að virka fyrir alvöru. Ég tel reyndar að mörg byggðarlög hafi þegar orðið fyrir meiri áföllum en þeim niðurskurði sem við stöndum nú frammi fyrir, eins og t.d. þegar heilu togararnir voru seldir í burtu og ekkert kom í staðinn. Minna var sagt þá en nú.

Sú breyting hefur þó orðið á með nýrri ríkisstjórn að byggðavandinn er viðurkenndur og mjög er leitast við að taka á honum með margvíslegum hætti, enda kemur það nú fram í einum allra öflugustu aðgerðum sem gripið hefur verið til í málefnum byggðanna síðustu áratugina. (ÖJ: Trúirðu þessu?) Já, þetta er sannleikurinn. Beinar aðgerðir felast m.a. í breytingum á úthlutun byggðakvóta, aukningu fjármuna sem Atvinnuleysistryggingasjóður leggur til vegna hráefnisskorts og gríðarlegri innspýtingu fjár frá Byggðastofnun til sjávarútvegsfyrirtækjanna. Ég vænti þess, frú forseti, að Byggðastofnun gangi þar fram með hugrekki og trú á framtíðina.

Ríkisstjórnin gerir sér líka grein fyrir því að landsbyggðinni verður ekki haldið í byggð með sjávarútveginum einum saman. Aukin fjölbreytni verður að koma til og þess vegna mun gríðarlegum fjármunum beint til uppbyggingar menntunar, rannsókna hvers konar og svo auðvitað annarra vaxandi atvinnugreina, svo sem ferðamennsku. Samgöngur verða stórbættar og einnig verður komið upp betri tengingu við netið sem er grundvallaratriði í öllum fyrirtækjarekstri í dag. Enn fremur minni ég á rannsóknir á þorskeldi, þær verða stórefldar sem og vonandi kræklingarækt. Hver veit nema við getum framleitt þúsundir tonna af þessum matvælum innan nokkurra ára með þessum hætti.

Frú forseti. Það er rétt að (Forseti hringir.) sjávarbyggðir landsins hafa átt undir högg að sækja en ég bind miklar vonir við þær varnaraðgerðir sem nú hefur verið gripið til.