135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er algjörlega ljóst að það verður afar erfitt að halda uppi tekjum sjómanna við þann mikla niðurskurð þorskafla sem boðaður hefur verið. Á það höfum við bent í Frjálslynda flokknum og lagt til að hann verði aukinn.

Það er líka fleira sem hægt er að gera til þess að ná upp þeim afla sem þó þarf að veiða á þessu fiskveiðiári. Við stefnum að því eftir tilfærslur á milli ára að veiða sennilega yfir 110 þús. tonn af ýsu. Til þess að ná ýsunni af veiðislóðinni þarf að komast að henni og það er það sem sjávarútvegsráðherra var að segja hérna áðan, að hann væri að opna hólf. Ég veit til þess að hann er búinn að opna eitt hólf á Kolkugrunninu í Húnaflóa. Þar hefur ekki hingað til verið talin mikil ýsuslóð en hins vegar rétt norðan við það er mikil ýsuslóð, svokallað Hornabankasvæði, og það væri fróðlegt að vita hvenær sjávarútvegsráðherrann hyggst opna það því að það kann auðvitað að verða til þess að gera mönnum veiðina auðveldari og takast á við það að veiða sínar aflaheimildir. Ég óttast reyndar mjög að svo þröngur stakkur sem mönnum er nú sniðinn muni leiða til verulega aukins brottkasts.

Það er einfaldlega þannig að það er illa hægt að framkvæma veiðar á Íslandsmiðum með svo litlum þorskafla sem boðaður er. Það veit sjávarútvegsráðherra, það vita fiskifræðingar, það vita allir sjómenn og allir vita hvað er fram undan í þessum efnum ef ekkert verður að gert. Það verður aukið brottkast, það þýðir ekkert annað en að horfast í augu við það. Því miður. Menn munu ekki horfa á litlu fiskana þegar þeir koma inn fyrir borðstokkinn eða halda þeim og koma með að landi á verði sem enginn getur unað við.

Í annan stað vil ég minna á að leiguverð á þorski er svo óheyrilega hátt að það er nánast ógerningur fyrir útgerðir að leigja til sín þorsk til að gera út. (Forseti hringir.) Allt þetta vinnur saman að því að við munum ekki geta nýtt fiskislóðina rétt undir núverandi (Forseti hringir.) kringumstæðum og þar af leiðandi munu tekjur sjómanna hrynja.