135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:27]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi andsvars míns lýsa sérstakri ánægju með þann áhuga sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur á því að Akureyri byggist upp sem sveitarfélag og þjónustukjarni fyrir landsbyggðina. Það er annað viðhorf en við höfum oft mátt mæta þar fyrir norðan í hans málflutningi á Alþingi undanfarin ár og ég fagna þeim sinnaskiptum sem hv. þingmaður sýnir í þessum efnum.

Það kom ágætlega fram hjá hv. þingmanni að þessar smáu upphæðir sem oft er um að ræða í því sem við getum kallað að teljist til byggðaaðgerða verði þess valdandi að hrepparígurinn leiði menn til að karpa um smámolana sem falla af stærri borðum. Það er mikið til í því. En með sama hætti hallast ég líka að því að ræða um eitthvert sveitarfélag eða byggðarlag sem mótvægi við eitthvert annað eins og hv. þingmaður nefndi, þ.e. að Akureyri væri ekki mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Ég lít ekki svo á. Þessi svæði eiga að sjálfsögðu að spila saman og þetta er einfaldlega annarra valkostur til búsetu í landinu heldur en setja sig niður á höfuðborgarsvæðinu. Við eigum ekki að ræða byggðamál undir þeim formerkjum að svæðin séu að bítast hvert við annað heldur er það sameiginlegt markmið okkar allra, þeirra 300 þúsund íbúa sem byggja þetta land, að byggja það saman. Það er meginatriði í mínum huga. Sökum þess að tími minn er að renna hér út mun ég í seinna andsvari örlítið að rökstyðja það sem ég mótmælti í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan þar sem hann talaði um að íbúaþróun á Akureyri hefði ekki verið með eðlilegum hætti. Ég skal víkja að því nokkrum orðum í seinna andsvari mínu.