135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:34]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg ekkert úr því að einkaframtakið hefur auðvitað mikil áhrif á þróun í atvinnumálum. En hinu er ekki hægt að neita, og hv. þingmaður getur nú ekki eytt því eða gert minna úr því en efni standa til, að hlutur hins opinbera í þeirri þróun á undanförnum árum fyrir norðan hefur verið býsna mikill.

Sérstaklega hefur það verið vel heppnað að byggja upp Háskólann á Akureyri, sem var pólitísk aðgerð, gerð gegn vilja hagsmunaaðila skulum við segja og mikilli andstöðu hagsmunaaðila. Það þurfti pólitískt þrek til að fara með það mál í gegnum stjórnsýsluna og þingið. Það hefur einmitt verið lykilatriði að það var sjálfstæður skóli en ekki deild í einhverjum öðrum skóla eða annexía að sunnan. Ríkið hefur lagt sig fram um að efla það á undanförnum árum og leggja því til fé, bæði til reksturs og uppbyggingar. Þannig að ég vil nú draga það fram sérstaklega sem aðgerð sem hefur lagt mikið af mörkum til þess að geta mætt þeim miklu breytingum sem hafa orðið í atvinnuháttum á Akureyri, m.a. vegna þess hve iðnaðurinn í raun og veru ekki bara dróst saman, hann hvarf á tiltölulega fáum árum á þessum stað sem var mjög sterkur í þeim efnum.

Ég vil ekki sleppa hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, (Gripið fram í.) án þess að rifja það upp og minna hann á að núna styður hann það að hið opinbera þurfi að grípa til aðgerða til mótvægis við minnkandi fiskveiðiheimildir í byggðarlögum. Vestfirðingar og reyndar margir aðrir þurfa sannarlega á því að halda að ríkisvaldið geri það sem því ber að gera og það getur gert í að breyta atvinnulífinu á þessum stöðum. Ég tek undir það sjónarmið hjá hv. þingmanni, ég gæti sagt miklu meira um það (Forseti hringir.) en það er best að láta það bíða betri tíma.