135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:00]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Ég ætla aðeins að leiðrétta, það kom ekki alveg skýrt fram hjá mér í fyrra andsvari, að í tilfelli þjóðlendulaga er það forsætisráðherra sem hefur það hlutverk sem iðnaðarráðherra hefur varðandi raforkulög og lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Raforkulög varða fallvötnin en lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu varða jarðvarma.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta var gert til þess að auðvelda samninga. Til þess að hægt væri að semja um þessi réttindi og þann aðgang sem sá sem nýta mundi réttindin ætti að hafa til þess að geta gert það samkvæmt því samkomulagi sem Titan-félagið gerði á árum áður. En það er rangt að það hafi verið gert til þess að sauma að einhverjum eða kippa samningsgrundvelli undan einhverjum. Það er rangt. Því er ekki að heilsa í þessu, þarna þurfa að fara fram eðlilegir samningar. En það var nauðsynlegt og er nauðsynlegt ef þarna eiga að fara fram einhverjar framkvæmdir að semja. Það var því afar mikilvægt að þetta væri gert á þessum tíma. En það er ekkert vafasamt við þetta þrátt fyrir það. Þó að hv. þingmaður sé á móti því að einhverjar framkvæmdir verði í þessum tilgangi gerir það hluti ekki vafasama samkvæmt lögum. Þeir eru mjög skýrir samkvæmt lögunum.