135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:02]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði því engu hvaða heimildir hann hefði haft til þessa gjörnings. (Fjmrh.: Lögin sem ég var að vísa í.) Það er ekkert í raforkulögum, það er ekkert í þjóðlendulögum, það er ekkert í fjárlögum og ekkert í fjáraukalögum. Það er ekkert sem segir að ráðstafa megi 93% af vatnsréttindum í Þjórsá án endurgjalds eða fyrir endurgjald án heimilda. Það er bara þannig. Enda sagði hæstv. ráðherra það hreint út. Það eru engar heimildir fyrir þessu enda þótt það standi hér að menn skrifi í fullri heimild nöfn sín undir þetta.

Hæstv. ráðherra talar um að þetta hafi verið eðlilegur gjörningur. Það hafi þurft að ná þarna samningum. Með þessum gjörningi eru 93% af vatnsréttindum í Þjórsá neðan Búrfells afhent Landsvirkjun á silfurfati, án endurgjalds og án heimildar, eins og ég hef rakið hér. Samningsstaða hinna sem fara með 7% hlýtur að vera öllum ljós. Þar er ólíku saman að jafna, samningsaðstöðunni.

Því stend ég við það, frú forseti, sem ég sagði, að með þessum gjörningi var fráfarandi ríkisstjórn að kippa allri samningsstöðu undan íbúum og landeigendum við Þjórsá og gerði það í þágu stóriðjustefnunnar sem sú ríkisstjórn gekk fyrir.