135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:44]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi áðan að þingmenn virtust sýna fjárlögum og umræðu um fjárlög frekar litla athygli sem er rétt. Þetta hefur loðað við í stjórnsýslunni almennt, hvort heldur það er í þinginu eða í sveitarstjórnum.

Hitt var ég ekki eins ánægður með, þegar hann fór að ræða um mótvægisaðgerðirnar og taldi að allir rétthugsandi einstaklingar, eins og hann orðaði það, hlytu að geta tekið undir þær tillögur sem koma fram í frumvarpi til fjárlaga og í því sem verið er að ræða hér, fjáraukalagafrumvarpinu. Gagnrýnislaust hlytu allir rétthugsandi einstaklingar að taka undir slíkt. Ég er ekki alveg klár á því hvað þingmaðurinn á við um rétthugsandi einstaklinga. Ég hélt að það væri hugsunarháttur sem væri á miklu undanhaldi í okkar þjóðfélagi að flokka fólk sem rétthugsandi eftir því hvort það væri manni sammála eða ekki.

En varðandi mótvægisaðgerðirnar. Í fjáraukalagafrumvarpinu er víða talað um mótvægisaðgerðir. Ég er ekkert viss um að allir séu sammála um að ævinlega sé um mótvægisaðgerðir að ræða. Ég get séð mörg dæmi þess að verið er að telja til verkefni sem þegar eru í gangi og eru jafnvel búin að vera í gangi í áratugi sem einhvers konar mótvægisaðgerð í dag. Ég nefni framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð sem er búinn að vera í umræðu lengi á Alþingi og er löngu búið að að ákveða að verði við utanverðan Eyjafjörð. Ég nefni togararall sem er búið að standa yfir í 20 ár og er núna kallað mótvægisaðgerð. Og ýmsar aðgerðir í menntamálum sem kallaðar eru mótvægisaðgerðir núna benda hreinlega til þess að ekki hafi staðið til að fara í neinar aðgerðir varðandi menntamál (Forseti hringir.) úti á landi ef ekki hefðu komið til neyðaraðgerðir í sjávarútvegsmálum. (Forseti hringir.)