135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:51]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég álít að í grunninn séum við innilega sammála, ég og hv. þm. Björn Valur Gíslason, enda kannski ekki langt á milli okkar í búsetunni. Við höfum alist upp á svipuðum slóðum og skynjum veröldina með áþekkum hætti að mörgu leyti, en þó ekki pólitískt. Ég held að við séum sammála um að við erum að horfa til þess hvernig við viljum byggja þetta land. Við erum kannski ekki sammála um það hvernig við viljum standa að því að nýta skattalegar heimildir. Sumir vilja hækka skattana en aðrir lækka þá o.s.frv.

Meginmarkmiðin eru ágætlega (Gripið fram í.) kýrskýr, þakka þér innskotið, hæstv. iðnaðarráðherra, en þetta kemur allt saman með kalda vatninu eins og maðurinn sagði. Meginatriðin eru skýr, meginmarkmiðin. Ég get alveg tekið undir margt af því sem menn nefna í þessari vinnu um að þetta mætti vera komið fyrr eins og ég sagði hérna áðan. Veruleikinn er bara ekki sá. Þetta er að birtast okkur núna. Ég segi, og segi enn og aftur, að mér er sama hvaðan gott kemur og mér er nokk sama um hvenær það kemur, bara ef ég hef tryggingu fyrir því að það mæti þegar þörf er á. Það er full þörf á þessu.

Ég vil undirstrika það úr þessum ræðustóli að ég lít ekki svo á að með þessum aðgerðum, þeim framkvæmdum sem hér eru boðaðar, séum við þar með búin að leysa úr þeim verkefnum sem lúta að því að tryggja betur en verið hefur á undanförnum áratugum búsetu fólks um allt land þar sem það kýs að búa. Það er margt óleyst enn í þeim í efnum.