135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[16:56]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Þetta er á margan hátt jákvætt þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að fjalla um að loka svæðum. Hann kynnti fyrir okkur á fundi í gær í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hugmyndir sínar um að loka sérstaklega kóralsvæðum fyrir suðurströndinni og gat þess að sjómenn og skipstjórnarmenn hefðu lagt til stærri og meiri lokanir en fyrirhugaðar eru. Það er auðvitað af því góða en að sama skapi vara ég við því að farið verði að hleypa stórum togurum nær landi þar sem 12 mílna lögsagan hefur verið látin gilda, þessi svokallaða togaralína á fagmáli. Mér líst ekki á að við förum að hleypa stórum skipum miklu nær vegna þess að það stangast æðioft á við veiðisvæði hjá línu- og netabátum og jafnvel snurvoðarbátum þegar stóru togararnir koma inn á þessi svæði.

Ég tek undir þau orð hv. þm. Björns Vals Gíslasonar að fara varlega í að smækka viðmiðunarmörk. Til gamans má geta þess út frá fiskifræðinni, verndunarsjónarmiðum og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að við erum búnir að veiða hlutfallslega meira fram yfir tillögur fiskifræðinga í ýsu en ef við miðum við þorsk. Samkvæmt því sem Hafrannsóknastofnun leggur til ætti þorskurinn að vera betur staddur. Þetta var smáútúrdúr en segir kannski að það er ekki þörf til að fara í stífar verndunaraðgerðir á þorskinum.

Ég vara við því að opna hólf hringinn í kringum landið og halda ekki áfram út af Reykjanesi, Garðskaga, Sandgerðisvita og Stafnesvita þar sem var línu- og netasvæði. Mér finnst þetta vera dálítið hættulegt. Það er nóg um að skip sem eru í dag að koma inn og fá að fara upp á þrjár eða fjórar mílur, eru með stærri vélar og meiri niðurgírun eða stærri og betri skrúfuútbúnað og meiri togkraft, eru komin upp í kálgarða eins og maður segir stundum. Það er líka búið að opna fyrir snurvoðina upp í fjöru frá Þorlákshöfn og austur að Vestmannaeyjum. Á fleiri stöðum vara ég við því að menn sækist eftir smáýsu bara af því að þetta er. Það er miklu nær að snúa okkur að alvörunni, þ.e. aðalforsendunni að skera ekki svona mikið niður þorskkvótann og ég held að það væri gott fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra að taka tillögur Frjálslynda flokksins, sem eru mjög hógværar, um að bæta við núverandi úthlutun 40 þús. tonnum af þorski og geta þá forðast svona aðgerðir eins og að hleypa togurum nær landi og annað til að reyna að tryggja það að menn nái að veiða ýsukvóta sem er kannski allt of stór, ýsukvótinn, og að sama skapi of lítið úthlutað af þorski.

Það er augljóst að þessi niðurskurður á þorski mun leiða af sér aukið brottkast og ýmsa aðra ógæfu, menn fara að freistast til þess að landa fiski fram hjá eða annað í þeim dúr. Ég minni á að í vor rétt fyrir kosningar var mjög merkilegur þáttur í sjónvarpinu, hjá Kompás á Stöð 2, um umgengni um auðlindina, spillinguna, svínaríið og svindlið og allt sem þar er í kring. Ég þekki þessa hluti á margan hátt og veit hvernig þetta hefur gengið fyrir sig í gegnum tíðina og ég vara við því að vera með reglur sem þurfa svona stíft prógramm. Og enn og aftur minni ég á að til að viðhalda þessu kvótakerfi borgum við til Fiskistofu 840 millj. á ári en setjum sennilega ekki nema 320 millj. í fíkniefnalögregluna. Þetta segir auðvitað dálítið um kerfið og minnir kannski svolítið á vinnubrögð í Sovétríkjunum sálugu eða í Austur-Þýskalandi hjá Stasi, þar sem allir voru að njósna um alla og allir að reyna að passa. Mergur málsins er sá að kerfið er vonlaust, það er glatað, það er vont og á ekki tilverurétt og þess vegna legg ég til að farið verði að huga að alvörubreytingum. Það má líka taka kvótabundnar tegundir út úr kvóta, eins og löngu, keilu og skötusel. Það hefði létt töluvert á mörgum útgerðum ef þær hefðu verið tekið út úr kvóta. Svo ég minnist ekki á kvótaleiguna sem er í dag og mun leiða af sér aukið brottkast þegar verð á hverju þorskkílói er orðið 220–240 kr. og jafnvel það lítið framboð að menn fá ekki þennan kvóta til leigu þótt þeir vilji borga allt upp í 240 kr. á kíló og séu reiðubúnir til þess.

Þetta segir mikið um fiskveiðistjórnarkerfið og ég verð aldrei svo gamall að ég hætti að tönnlast á því meðan það er við lýði og tel náttúrlega fulla þörf á því að menn fari að reyna að átta sig á þessari villu. Það hefur stundum verið sagt að við værum með svo gott fiskveiðistjórnarkerfi, það besta í heimi hefur stundum verið sagt, en það kemur á daginn að þegar við settum það á fyrir 22 árum veiddum við 267 þús. tonn af þorski en núna erum við komin niður í 130 þús. tonna úthlutun. Það segir mér, hæstv. ráðherra, að þetta kerfi sé með öllu vonlaust og það er bara út af eignarhaldinu og peningunum sem liggja í þessu sem menn eru fastir í því og vilja ekki breyta því. Það er ömurlegt að horfa upp á að þetta skuli vera með þessum hætti og menn skuli alltaf vera að gæta hagsmuna fárra, þ.e. sægreifanna, en ekki hagsmuna fjöldans sem hefur náttúrlega liðið fyrir þetta, ég tala nú ekki um byggðirnar kringum landið og mannlífið þar á alla kanta, félagsleg vandamál sem hafa fylgt kvótakerfinu eru víða og á mörgum sviðum. Við þurfum endilega að breyta þessu en það er kannski eins og að tala við stein, hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ekki séð sér fært að breyta einu einasta snitti eða leggja eitt eða neitt til. Ég sagði áðan að hægt væri að taka tegundir út úr kvóta, ég talaði bara um þrjár tegundir, og ég sæi líka fyrir mér, og það kæmi Vestfirðingum og sveitungum hans til góða, að taka steinbít og jafnvel ufsa og ýsu út úr kvóta líka. Þegar veiða má að tillögu fiskifræðinga 110–120 þús. tonn af ýsu er engin ástæða til að vera með hana kvótabundna. Þess þarf ekki.

Það er svo margt sem hægt er að ræða í sambandi við sjávarútvegsmálin að maður getur endalaust rætt um þau en ég vonast til að við eigum eftir að fá meiri umræðu um þau í dag. Þó vil ég taka enn og aftur fram að ég fagna þessum lokunum varðandi kóralrifin fyrir sunnan en ég vara við því að fara að hleypa togurum nær landi. Það er hægt á einstaka svæðum en í flestum tilfellum er það til skaða að hleypa togurum nær landi því að 5 tonna hlerar hafa áhrif á botninn. Þess vegna eigum við að varast það og varast líka að stefna veiðarfærum saman, að hleypa togurum inn á grunnslóð þar sem línu- og netabátar og jafnvel snurvoðarbátar eru að veiða fer bara ekki saman.