135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[17:14]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður segir þá eigum við auðvitað að marka heildarstefnuna, almennu stefnuna hér á þinginu. Hins vegar er það þannig þegar við þurfum að grípa til þess að loka hólfum eða gefa heimildir til að opna þau þá verður það ekki gert með því að setja um það lög í hvert einasta skipti. Það er bara þannig að hlutirnir gerast hraðar í okkar lífi en svo að við getum stýrt þeim öllum með lagasetningu frá degi til dags. Það er ekki svo. Þess vegna höfum við reglugerðarvaldið og þess vegna er það reglugerðarvald markað með lögunum sjálfum, það er það sem verið er að gera með þessum lögum. Það er verið að segja: Ráðherrann hefur heimild á þessu sviði til að beita reglugerð og hann verður auðvitað að gera sínar reglugerðir á grundvelli laganna. Ég held að ómögulegt sé að gera þessa hluti þannig að við ákveðum á Alþingi í hvert einasta skipti sem við ætlum að setja niður ný hólf, t.d. vegna verndunar kóralsvæða eða þess háttar.

Aðeins varðandi opnanir og lokanir hólfa. Ég ætla ekki að tjá mig um einstakar opnanir. Ég hef ekki forsendur til þess, sumar hafa gerst löngu áður en ég kom að málum í sjávarútvegsráðuneytinu og ég hef engar forsendur til að fjalla um það. Ég vil aðeins segja að þegar krafa hefur komið um opnun hólfa þá hefur hún ekki síður verið frá sjómönnum eins og eðlilegt er. Þeir eru í mesta návíginu og fara auðvitað fram á það vegna þess að þeir telja ástæðu til að sé kíkt sé inn í þessi hólf. Það er gert þannig, eins og hv. þingmaður veit ekki síður en ég, að sendur er út eftirlitsmaður frá Fiskistofu og gerðar eru togprufur og oft er nú kvartað undan því að menn séu ekki nógu duglegir eða leyfi nógu margar togprufur. Á grundvelli mælinga er síðan ákveðið hvort svæðið verði lokað eða opnað að nýju. Viðbrögðin sem ég hef heyrt, a.m.k. viðbrögðin sem ég fæ frá starfandi sjómönnum eru yfirleitt þau að mönnum finnst við vera heldur íhaldssamir í þessum efnum. En auðvitað er sjálfsagt að fara yfir þessa hluti því að það er eðlilegt í þessum efnum að við styðjumst við efnislega þætti. Ég held að við séum örugglega sammála um það, ég og hv. þingmaður.