135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[17:20]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar verið er að taka afstöðu til þessara hólfamála, það þekki ég býsna vel, er það ekki gert átakalaust. Ef einhvers staðar eru uppi trúarbragðadeilur er það þegar kemur að þessum hólfum. Ég held ég geti fullyrt að yfirleitt reynum við að leita eftir áliti hagsmunaaðila, það eru þá útgerðarmenn og sérstaklega útgerðarmenn stærri og minni báta. Stundum tekst okkur að lenda þessu í sæmilegri sátt en stundum þurfum við að taka af skarið og það hefur þá gerst á báða vegu. Smábátasjómenn á Suðurnesjum eru kannski ekki ánægðir með niðurstöðu ráðuneytisins sem hv. þingmaður vísaði til. Ég get síðan vitnað til ýmissa dæma þar sem útgerðarmenn innan LÍÚ hafa verið afar óánægðir með niðurstöðu okkar og hafa talið að við værum að draga taum eigenda minni báta. Ég gæti nefnt ýmis dæmi í því sambandi sem ég ætla út af fyrir sig ekki að rekja.

Hv. þingmaður sagði að við værum strengjabrúður LÍÚ en ekki finnst LÍÚ það. Þeir hafa haft mjög hátt, eins og menn hafa tekið eftir, upp á síðkastið og telja að við séum þvert á móti strengjabrúður Landssambands smábátaeigenda og ég alveg sérstaklega tiltekins hóps smábátaeigenda að vestan með því að hafa staðið vörð um línuívilnun, með því að hafa ekki viljað leggja af byggðakvóta og með því að hafa ekki fallist á það að lækka slægingarstuðulinn eins og mikil krafa var uppi um. Þetta eru allt saman mjög mikil álitamál, mikil deiluefni, og það fer ekkert á milli mála hvar ég setti mig inn í þá deilu. Ég kannast því ekki við að vera strengjabrúða þessara manna í LÍÚ og ég held að síðast af öllu mundu þeir vilja kannast við að bera ábyrgð á því sem ég er að gera í sjávarútvegsmálum.