135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:34]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi breyttum við lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs til að reyna að tryggja að það kæmi ekki fyrir að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum. Sú umræða hafði verið mjög hávær að hluti af þessu háa leiguverði sem hv. þingmaður vísaði til stafaði m.a. af því að sjómenn væru bakdyramegin og með ýmsum aðferðum látnir taka þátt í kvótakaupum. Ég get ekki fullyrt neitt um það en við styrktum lagagrundvöll Verðlagsstofu skiptaverðs sem var stofnun sem var komið á laggirnar í kjölfar sjómannadeilu um árið.

Ég trúi því að það geti haft veruleg áhrif og eigi þess vegna að auka öryggi sjómanna í þessum efnum. Ég get út af fyrir sig tekið undir með hv. þingmanni. Mér finnst mjög óskiljanlegt þetta háa leiguverð. Menn vísa til þess að vísu að fiskverð hafi hækkað mjög mikið, fiskverð á erlendum mörkuðum hafi hækkað, fiskverð á innlendum mörkuðum sömuleiðis, og ef við skoðum þetta t.d. í tveggja ára samhengi er alveg ljóst mál ef við tökum bara þorskinn að hann hefur hækkað gríðarlega mikið í verði. Síðan er auðvitað Verðlagsstofu skiptaverðs ætlað að elta þessa verðhækkun uppi.

Hv. þingmaður tók til máls í andsvörum um þessi efni og vakti athygli á því. Ég gat hins vegar ekki skilið af andsvari hans hvort hann væri á móti því yfir höfuð að fella niður þetta veiðigjald í þorskinum, hvort hann teldi að það væri eðlilegast að viðhalda því — eða er hann þeirrar skoðunar eins og við í ríkisstjórnarflokkunum að það sé eðlilegt við þessar aðstæður að fella niður veiðigjaldið í þorskinum?