135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:54]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók vel eftir því að hv. þingmaður hvatti mig til að fækka kvótabundnum tegundum og það skildi ég mjög vel. Ég var ekki að heyra það í fyrsta skipti af hans vörum og hef meðtekið þann boðskap. Ég er ekki í neinum vafa um hvernig ég eigi að skilja orð hv. þingmanns að því leyti.

Það sem mér var hins vegar ekki alveg ljóst, og þess vegna kom ég upp í andsvar, var hver afstaða hv. þingmanns er til frumvarpsins. Við leggjum til að lækka veiðigjaldið með því að afnema veiðigjaldið í þorski. Hv. þingmaður vísaði til þess að fyrirkomulag veiðigjaldsins væri núna þannig að við tækjum tillit til framlegðarinnar á tímabili sem lauk seinast í apríl. Síðan hafa aðstæður versnað. Það er alveg rétt. Gengið hefur orðið útflutningsatvinnuvegunum óhagstæðara og fram undan eru minni aflaheimildir í þorski. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að hann hefði áhyggjur af því að þetta veiðigjald, jafnvel þó að frumvarpið yrði samþykkt, væri of íþyngjandi. Það var ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi.

Hann vísaði til þess að veiðigjaldið hefði hækkað talsvert á hvert kíló milli fiskveiðiára, sem er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Þess vegna vildi ég, til að glöggva mig betur á umræðunni og átta mig á afstöðu hv. þingmanns til frumvarpsins, að hann svaraði mér því hvort hann hefði mótað sér afstöðu til málsins. Mun hann styðja það að ganga til móts við útgerðina með hagsmuni sjómanna og fiskverkafólks að leiðarljósi með því að afnema veiðigjaldið á þorski? Það leiðir til þess að útgjöld útgerðarinnar minnka sem því nemur. Það hefur auðvitað áhrif á kjör sjómanna. (Gripið fram í.)

Skilur hv. þingmaður sem kallar fram í ekki að ef við leggjum aukin útgjöld á atvinnulífið, hvort sem það er á útgerð eða annað, þá hefur það áhrif, t.d. á hvað hægt er að greiða í laun.