135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:26]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nú margt áhugavert sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og sumu af því er ég ágætlega sammála. En hins vegar brást þingmaðurinn því ekki að vera talsmaður stórútgerðarinnar sem helst vill fénýta auðlindina í eigin þágu og á kostnað margra annarra.

Hann sagði að veiðigjaldið, sem er 2 kr. og 42 aurar á hvert kíló af þorski, væri þungur skattur á landsbyggðina. Ég get tekið undir það að þeir sem veiða sinn fisk og þurfa að borga veiðigjald verða fyrir útgjöldum sem þeir voru án áður en veiðigjaldið var sett á. En þungur skattur getur það ekki verið því miðað við meðalverð á þorski, sem menn fá í dag, eru það kannski á milli 1–2% af aflaverðmæti sem menn greiða í veiðigjald af veiddum fiski.

Síðan eru það þeir sem ekki nota veiðiheimildir til þess að veiða heldur til þess að fá aðra til að veiða fyrir sig gegn gjaldi. Það eru þeir sem leigja til sín veiðiheimildirnar sem eru að borga þungan skatt, virðulegi forseti. Þeir eru að borga frá 150–180 fyrir hvert kíló af heimild sem þeir taka á leigu.

Miðað við upplýsingar Fiskistofu voru liðlega 55 þús. tonn af aflamarki í þorski flutt á milli skipa í eigu óskyldra aðila á síðasta fiskveiðiári. Miðað við 150 kr. í leiguverð þá skilar það þeim sem hefur kvótann undir höndum 8,2 milljörðum kr. í tekjur. Þeir greiða hins vegar aðeins um 130 millj. kr. í veiðigjald þannig að þeir hafa af þessu gríðarlegan hagnað. Það eru þeir sem framleigja kvótann sem eru að leggja þungan skatt á ýmsar útgerðir í landinu.