135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:57]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan um þetta álit hv. þm. Karls V. Matthíassonar um veiðigjaldið og tilurð þess að það er auðvitað ekki staðfesting eða einhvers konar samkomulag á milli þjóðar og útgerðar um eignarhaldið á auðlindinni. Það er langt í frá að veiðigjaldið hafi verið sett á sem einhvers konar samkomulag milli útgerðarmanna og þjóðarinnar, að með því bara að greiða gjald fyrir auðlindina staðfestu þeir þar með eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Þetta kom til vegna þess að það var orðið afar umdeilt í þjóðfélaginu og þar á meðal í þinginu að útgerð gæti valsað um, eins og hún hafði gert fram að því, með þessa þjóðarauðlind eins og hún vildi án þess að spyrja einn eða neinn á meðan þjóðin bæri af því ákveðinn kostnað að auki. Þá var engin staðfesting á því að þjóðin ætti auðlindina en ekki útgerðin. Það hafði ekkert samkomulag verið gert um það, þetta á ekkert skylt við það. Þetta var auðvitað sett á í þeim tilgangi að því fylgir ákveðinn kostnaður að halda utan um þessa eign, þessa þjóðarauðlind. Þannig var þetta sett á.

Hins vegar hafa útgerðarmenn og þeir sem hafa ráðið yfir veiðiheimildum og greitt fyrir þær litið á þetta gjald sem viðurkenningu á rétti á sínum á auðlindinni, sem kemur fram í því að þeir framselja veiðiheimildir og þær heimildir sem þeir hafa fengið og greitt þetta gjald fyrir eins og þeir vilja. Þeir fara með þessa eign eins og þeir vilja og þeir veðsetja hana og selja eins og þeir vilja. Það bendir ekki til þess að gert hafi verið samkomulag milli þjóðarinnar og útgerðarinnar um að þetta sé sameign þegar menn geta hagað sér þannig með þær heimildir sem þeir hafa.