135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

vatnalög.

94. mál
[19:21]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vatnalögum. Í þessu frumvarpi er að finna ákaflega einfaldar tillögur. Lagt er til að gildistöku vatnalaganna, sem áttu að taka gildi 1. nóvember næstkomandi, verði frestað um ár.

Tildrög þessa máls, frú forseti, eru öllum ljós. Á sínum tíma þegar fyrrverandi ríkisstjórn lagði fram frumvarp til nýrra vatnalaga spunnust um það heiftarlegar deilur í þessum sölum. Líkast til voru það hörðustu átök sem urðu á því kjörtímabili milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Undir lok 2. umr. var gert samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu og á þeim tímapunkti umræðunnar gaf þáverandi ríkisstjórn ákveðna yfirlýsingu. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa þessa yfirlýsingu eða hluta úr henni, sem flutt var af þáverandi iðnaðarráðherra miðvikudaginn 15. mars 2006, þ.e. daginn eftir næturfundinn þar sem samkomulagið náðist.

Ég vitna í ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, sem þá gegndi embætti iðnaðarráðherra, með leyfi forseta:

„Ég mun nú lesa yfir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tilefni af samkomulaginu, með leyfi forseta:

„Náðst hefur samkomulag milli allra þingflokka um framvindu frumvarps til nýrra vatnalaga. Samkomulagið felur í sér að iðnaðarráðherra mun, þegar frumvarpið hefur verið samþykkt, skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka, auk eins fulltrúa sem tilnefndur skal af umhverfisráðherra og formanns sem skipaður skal án tilnefningar. Skal nefnd þessi taka til skoðunar samræmi laga þessara við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða, þar á meðal fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra til vatnsverndarlaga, sem byggjast mun að stofni til á tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2000, nr. 60, og fyrirhugað frumvarp iðnaðarráðherra til laga um jarðrænar auðlindir.

Í starfi sínu skal nefndin einnig hafa til hliðsjónar tillögur nefndar iðnaðarráðherra, sem skipuð er á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, svo sem þeim hefur verið breytt á yfirstandandi þingi. Nefndin skal skila áliti sínu eigi síðar en 1. október 2006.““

Síðan frú forseti, fylgdi með yfirlýsing um seinni hluta samkomulagsins sem var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þá hefur verið ákveðið að gildistöku nýrra vatnalaga verði frestað fram til 1. nóvember 2007.“

Eins og má ráða af þessu, frú forseti, gerði þáverandi stjórnarandstaða samkomulag við framkvæmdarvaldið á þessum tíma. Það fólst í tvennu. Í fyrsta lagi að fresta skyldi gildistöku vatnalaga um tiltekinn tíma. Í öðru lagi var því lofað af hálfu ríkisstjórnarinnar að Alþingi fengi að koma að tiltekinni skoðun sem lýst var í yfirlýsingu þáverandi iðnaðarráðherra. Sérhver þingflokkur á Alþingi átti þá að tilnefna mann til nefndarstarfa sem átti að hafa þetta með höndum.

Frá því er skemmst að segja, frú forseti, að þegar ég kom í iðnaðarráðuneytið og fór að spyrjast fyrir um framvindu starfa þessarar nefndar þá kom það í ljós að hún hafði aldrei verið skipuð. Þáverandi iðnaðarráðherra hafði að vísu óskað eftir tilnefningum í nefndina. Ég fann í fórum ráðuneytisins drög að skipunarbréfi sem dagsett var 1. september síðasta árs, þ.e. hinn sama dag og nefndin, sem aldrei var skipuð, átti að ljúka störfum.

Hér er um að ræða loforð framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Ég hef sagt það skýrt að ég vil ekki bera það á mínum öxlum að framkvæmdarvaldið, sem ég er nú hluti af, svíki það loforð.

Þess vegna legg ég fram þetta frumvarp. Um það er góð sátt milli núverandi stjórnarflokka. Nefndina mun ég síðan skipa á næstu dögum þegar máli þessu vindur fram og þess er að vænta að hún vinni hratt og vel og skili niðurstöðum til að hægt verði að leiða þetta mál til lykta, eða eins og einhver sagði, í jörð.

Ég legg svo til, frú forseti, að að þessari umræðu lokinni að verði málinu vísað til iðnaðarnefndar.