135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

vatnalög.

94. mál
[19:31]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Við töluðum báðir lengi, vel og mikið í fyrra þar sem við töluðum gegn þessum lögum og kannski er ástæða til að rifja það upp eða benda á að auðvitað eru vatnalögin bara einn angi af þeirri miklu umræðu sem nú fer fram um orkumál, auðlindir o.s.frv. Það var athyglisvert í umræðu í morgun að fulltrúi þess stjórnmálaflokks sem hefur kannski gengið harðast fram einmitt í þessum efnum, þ.e. Framsóknarflokkurinn sem stóð fyrir lögum um auðlindir í jörðu, sá sem bar fram vatnalögin o.s.frv., kom hér í pontu í morgun og baðst á einn eða annan hátt afsökunar á sjálfum sér, gjörðum sínum, og lýsti því enn fremur yfir að þeir væru vitrari í dag en þeir voru í gær.

Ég lít því svo á að sú vinna sem nú er fram undan sé angi af meiri vinnu sem við þurfum að fara í. Við þurfum að ná utan um það hvernig við skipum auðlindum okkar í framtíðinni, tryggjum þar almannaeigu á auðlindum o.s.frv. Þetta er angi af þeirri vinnu. Stjórnarflokkarnir eru mjög samstiga um að setja þessa vinnu af stað og ég lýsi bara ánægju minni með það að hv. þm. Ögmundur Jónasson er tilbúinn til að leggja sitt af mörkum í þá vinnu líka.