135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[19:53]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í grundvallaratriðum er þetta rétt og sérstaklega það sem hæstv. ráðherra sagði að ég vildi og það er okkar afstaða að vatnsveiturnar eigi að vera 100% í eigu opinberra aðila. Engu að síður geri ég greinarmun á því að fela einhverjum aðila tímabundið rekstur á tilteknu fyrirtæki annars vegar og eignarréttinum hins vegar, á nákvæmlega sama hátt og við tölum um sjávarauðlegðina, þ.e. að mikilvægt og lífsnauðsynlegt sé að tryggja eignarhald þjóðarinnar án þess að þjóðin endilega eigi öll veiðiskipin. Það er önnur saga. Ég tel reyndar að vatnsveitur og orkuveitur eigi að vera í almannaeign og það eru önnur rök. En grundvallaratriðið er að tryggja eignarhald á þessum auðlindum.

Varðandi vatnalögin þá var alveg skýrt hver afstaða flokkanna var. Þó að þingmenn Frjálslynda flokksins geri að sjálfsögðu grein fyrir því eflaust þá man ég að við vorum þar á sama róli og Samfylkingin, þ.e. Vinstri hreyfingin – grænt framboð, og þar er meiri hluti, alveg klár meiri hluti, fyrir því að endurskoða þessi lög í grundvallaratriðum og fella úr gildi hin umdeildu atriði enda var ég að vísa í yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar frá 16. mars 2006 þar sem hún segir að (Forseti hringir.) lögunum verði að sjálfsögðu breytt.