135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[20:41]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að fjórir þingmenn eru í salnum, (Gripið fram í: Fimm.) og kannski sá sjötti að koma. Þar af eru fjórir úr Frjálslynda flokknum. Það er dálítið sorglegt að þingmenn skuli ekki sjá sér fært að ræða jafnalvarlegt mál og vatnalagafrumvarpið og um vatnið almennt. Hér er til umræðu frumvarp frá Vinstri grænum og full ástæða er til að ræða vatnið vandlega. Vatnið er ein af okkar mestu auðlindum, hvort sem það er heitt eða kalt.

Áður en lengra er haldið finnst mér sjálfsagt að við hælum hæstv. iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, fyrir það að fresta gildistöku vatnalaga um eitt ár. Væntanlega gefst tími til þess að endurskoða lögin og koma með ný ef menn vilja ekki hreinlega fella þessi lög úr gildi sem væri kannski best.

Í þessu eins og öllu öðru þarf að gæta hagsmuna heildarinnar en ekki sérhagsmuna. Við erum kannski farin að fjalla um einmitt þennan þátt hér í þinginu, þ.e. hagsmuni heildarinnar en ekki hagsmuni fárra útvalinna. Það er grundvallaratriði í allri pólitík hvort við erum tilbúin til þess að verja hagsmuni fárra frekar en hagsmuni heildarinnar. Stundum finnst manni eins og sérhagsmunirnir, hagsmunagæsla fyrir þrýstihópa og ákveðin samtök, verði ofan á. Að sérhagsmunir séu hafðir að leiðarljósi en ekki heildarhagsmunir.

Nú er t.d. verið að einkavæða Hitaveitu Suðurnesja, búið er að selja að minnsta kosti 48%. Svo er þetta Reykjavíkurfár sem enginn veit hvernig endar, hvort fjórmenningarnir sem eru að mynda meiri hluta í Reykjavík í dag bera gæfu til að starfa saman eða hvort þeir verða tvístraðir á morgun.

Það er ánægjulegt að hæstv. iðnaðarráðherra er mættur í hús og það er kannski ekki verra (Iðnrh.: Ég var í sturtu.) — þú varst í sturtu já, það er ekki verra að þú þrífir þig. En það er nú annað mál. En ég var aldrei þessu vant að hæla þér og þakka þér fyrir að hafa frestað gildistöku vatnalaganna.

Hæstv. þingforseti. Það er hlaupinn svefngalsi í fólk og menn eru farnir að gera að gamni sínu úti í sal. Ég vakti athygli á því í upphafi ræðu minnar hve fáir þingmenn eru í salnum en ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa ræðu mína lengri í bili.