135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[20:45]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. 10. þm. Suðurkjördæmis og þakkir til iðnaðarráðherra fyrir að hafa frestað gildistöku vatnalaga þannig að þjóðkjörnum fulltrúum gefist færi á að endurskoða lögin og þau sjónarmið sem lágu til grundvallar þegar vatnalögin voru samþykkt á síðasta þingi. Það er nú einu sinni þannig að um þau urðu miklar deilur og núverandi iðnaðarráðherra fór mikinn og tók þátt í þeim umræðum. Hann mælti þar óvenjulega margt af mikilli snilli sem kom mörgum á óvart. En það er nú einu sinni þannig að við erum að tala um viðkvæma náttúruauðlind og eina þá mikilvægustu og það verður að vanda mjög til lagasetningar varðandi hana. Þar af leiðandi, miðað við þau sjónarmið sem fram eru komin, þær deilur og ágreining sem ríkir, að það besta sem við gætum gert í þessu máli væri að fella þau vatnalög sem voru lögtekin á síðasta þingi úr gildi. Ég mæli því með samþykkt þeirrar tillögu sem hér er til umræðu.

Vatnið er náttúruauðlind sem á að vera þjóðareign. — Ég bið forseta um að hafa stjórn á þessum ólátamönnum í salnum. — Vatnið er þannig að það á að vera þjóðarauður. Það er ein mikilvægasta náttúruauðlind sem um er að ræða. Hér áður fóru fram umræður þar sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, 9. þm. Reykv. n., velti fyrir sér nauðsyn á þjónustu og á öðrum nauðsynjum. En þannig er að fólk lifir ekki af nema vatnið sé til staðar. Því þarf vatnið, eins og auðlindamálin öll, á mjög mikilvægri og ítarlegri umræðu að halda. Eins og komið hefur fram á síðustu dögum, í umræðum í borgarstjórn Reykjavíkur hjá þáverandi meiri hluta, og væntanlega í þeim meiri hluta sem tekur við völdum, að stjórnmálamennirnir eru í umræðunni ekki komnir nægilega langt. Þeir sem voka yfir auðlindinni, vilja hreppa hana, taka hana til sín og nýta í eigin þágu, eignast hana fyrir sjálfa sig. Því miður hefur manni virst það á undanförnum dögum að stjórnmálamenn hafi að hluta til ekki verið búnir undir þá sókn sem hófst varðandi þær náttúruauðlindir sem um var að ræða og tengdust Orkuveitu Reykjavíkur.

Það er þannig með auðlindamálin, varðandi vatn, rafmagn, heitt vatn og fiskimiðin, að umræðan er vanþróuð og stjórnmálamenn hafa því miður fallið í þá gryfju að láta hagsmunaaðila taka stjórnina og þoka málunum í þann farveg sem þeim var hentast. Það er nokkuð sem við verðum að taka til gagngerrar skoðunar, löggjafarþing þjóðarinnar, og koma þeim málum í þann farveg að við störfum til hagsbóta fyrir þjóðina alla þannig að fólkið í landinu, komandi kynslóðir, geti sagt að við höfum þó gengið götuna til góðs og hugsað um heildarhagsmuni til framtíðar en ekki fórnað mikilvægum auðlindamálum á altari vanþekkingar og skorts á tíma eða umræðu sem nauðsynlegt var að láta fara fram.

Hv. 9. þm. Reykv. n. fór vítt og breitt í ítarlegri ræðu sinni um með hvaða hætti og hvernig hefði verið staðið að einkavæðingu í landinu. Ég gat ómögulega skilið hann öðruvísi en svo að hann væri almennt á móti einkavæðingu, að það skipti ekki máli hvernig hlutirnir væru en hann væri á móti einkavæðingu. Menn skiptast jú í ólíka stjórnmálaflokka vegna þess að sumir telja ákveðna hluti mikilvæga … (Gripið fram í.) — Nei, ég er að tala um Árna Þór Sigurðsson. Menn skiptast í ólíka stjórnmálaflokka vegna þess að þeir hafa mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að standa að hlutum eins og þessum.

Ég tel mjög mikilvægt að einkavæða það sem hægt er að einkavæða til hagsbóta fyrir fólkið í landinu, þ.e. þau verkefni sem eru betur komin í höndum einstaklinga og félaga en í höndum ríkisins, þar sem eðlileg samkeppni getur ríkt og fengist er við atriði sem markaðurinn á að sinna og getur sinnt betur en ríkið.

Þegar við horfum á einkavæðingu liðinna ára koma til skoðunar ýmsir hlutir þar sem við getum sagt að fyrirtækin séu jafnvel betur rekin en þau voru í höndum ríkisins en þess hafi e.t.v. ekki verið gætt hvernig staðið var að einkavæðingunni. Ég minnist þess að á sínum tíma var talað um, þegar fyrst var byrjað að ræða um einkavæðingu ríkisbankanna, að nauðsynlegt væri að hafa dreifða eignaraðild. En úr varð að þegar til komu viljugir, kappsfullir kaupendur þá skipti þessi stefnumörkun ekki máli heldur var fallist á að selja þeim sem vildu kaupa og voru þóknanlegir þáverandi stjórnarherrum.

Líklegt má telja að staðið hafi verið að einkavæðingunni að hluta með óeðlilegum hætti, jafnvel með þeim annmörkum að ég hefði talið að það ætti að sæta sérstakri skoðun, einkum ætti sala ríkisbankanna að sæta sérstakri rannsókn á með hvaða hætti og hvernig æðstu stjórnendur stóðu að þeim málum á sínum tíma. Samt sem áður verður að viðurkenna að einkavæðingin tókst sem skyldi, að öðru leyti en því að samkeppnisumhverfið hvað varðar hinn almenna neytanda hefur ekki fengið að njóta sín sem best.

Vítt og breitt um veröldina hefur rekstur verið einkavæddur. Eftir að einkavæðingarferlið hafði staðið í um tvo áratugi var gerð könnun á því hvort einkavæðingin hefði skilað sér í aukinni hagkvæmni í rekstri fyrirtækjanna og eins gagnvart neytendum. Í langflestum tilvikum var um það að ræða þannig að einkavæðingin varð ekki til þess að draga úr þjóðarframleiðslu heldur til að auka hana og til þess að sækja inn á ný svið og auka möguleika borgaranna í hverju þjóðfélagi. Það má því ekki fordæma einkavæðingu þó að við höfum ekki verið tilbúin að setja allt í þá sömu körfu.

Við frjálslynd höfum lagt mikla áherslu á það, eins og kom fram í máli Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, í ræðustól áðan, að stefna okkar miðar við það að náttúruauðlindir þjóðarinnar séu í þjóðareign. Þar erum við að tala um vatn, rafmagn, heitt vatn og fiskimiðin. Þar hefur rangt verið tekið á málum, í stað þess að þjóðin hafi umráðarétt yfir þessum auðlindum hefur fáeinum útvöldum verið falið að gæta þjóðarauðsins. Við leggjum áherslu á að þeim reglum verði breytt.

Við gerðum ráð fyrir að myndast gæti meiri hluti, eftir alþingiskosningar í vor, sem mundi hrinda þeim ólögum sem hafa gilt um mikilvægustu náttúruauðlind þjóðarinnar, fiskimiðin. Af því hefur því miður ekki enn orðið. Við teljum líka nauðsynlegt að borgararnir, þjóðin, hafi með að gera allt sem varðar nauðsynlega þjónustu, þær nauðsynjar sem eru grundvöllur þess að fólk lifi mannsæmandi lífi. Við erum að tala um aðgang að náttúruauðlindunum, að heitu og köldu vatni, að rafmagni og ýmsum öðrum þáttum.

Þá vaknar spurningin um viðhald náttúruauðlindanna, hvernig því er við komið. Ef við erum þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að náttúruauðlindirnar séu í þjóðareigu þá er spurningin: Er eitthvað óeðlilegt þó að nýtingarrétturinn sé stundum framseldur í hendur einkaaðilum? Að sjálfsögðu getum við ekki amast við því. Að sjálfsögðu erum við ekki að amast við því þó að nýtingarrétturinn sé framseldur einkaaðilum sé það gert með þeim hætti að eðlileg samkeppni geti verið á þeim markaði sem þá verður til.

Eitt mesta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag, sem hefur t.d. kristallast varðandi Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, er að raunverulegt samkeppnisumhverfi er ekki fyrir hendi hvað þessi fyrirtæki varðar. Eigendur þeirra geta í raun ákveðið verðið, komist yfir auðlindina og gert sér mat úr henni eins og þeim hentar. Slíkt umhverfi viljum við ekki.

Í umræðunni á undanförnum dögum, meira að segja var getið um það í einu víðlesnasta blaði þjóðarinnar, að allt sé dýrast á Íslandi. Það skiptir máli fyrir okkur að koma í veg fyrir að aðgangur að náttúruauðlindum, m.a. aðgangur að vatni, fari ekki í þann farveg að einkaaðilar sem komast yfir vatnsréttindin geti nýtt sér það sér til hagsbóta en skattleggi alla þjóðina að öðru leyti.

Hæstv. forseti. Á grundvelli þeirra sjónarmiða og raka sem ég hef hér talið fram tel ég mikilvægt að fallist verði á þá tillögu sem hér er til umræðu og vatnalögin felld úr gildi. Eins og ég byrjaði ræðu mína á er mikilvægt að þjóðin og löggjafarþingið hafi möguleika til að fara í gegnum vandaða umræðu um þessi mál og taki ákvörðun sem geti orðið þjóðinni til hagsbóta til lengri tíma en ani ekki eins og gert var með samþykkt vatnalaga sem hafa verið samþykkt en gildistöku þeirra frestað.